Tveir íhaldsflokkar í Danmörku vilja neita dönskum innflytjendum um ríkisborgararétt vilji þeir ekki taka í hönd á öðrum Dönum. Flokkarnir búast ekki við andstöðu frá ríkisstjórninni í þessu máli og búast við að skilyrðinu verði framfylgt á næstunni. Þetta kemur fram í frétt frá Danska ríkisútvarpinu.
Í fréttinni er vikið að nýjum reglum sem danska ríkisstjórnin innleiddi fyrr í sumar um skilyrði fyrir dönskum ríkisborgararétt. Samkvæmt þeim skilyrðum þarf hver umsækjandi að taka þátt í sérstakri athöfn í sínu umdæmi og skuldbinda sig til að hafa dönsk gildi í heiðri. Samkvæmt Danska þjóðarflokknum og Íhaldsflokknum í Danmörku mun athöfnin einnig innihalda handaband við sýslumann umdæmisins.
„Maður tekur í höndina í Danmörku“
Samkvæmt Martin Henriksen, talsmanni útlendingamála Danska þjóðarflokksins, reyndu flokkarnir að gera handabandið að formlegu skilyrði fyrir ríkisborgararétt, en samið hafi verið um að umsækjendur skuli sýna almenna háttvísi á athöfninni. „Og ég reikna náttúrulega með að ríkisstjórnin og Sósíaldemókratarnir muni styðja Danska þjóðarflokkinn þegar reglurnar verða teknar í gildi,“ segir Martin.
Naser Kader, talsmaður útlendingamála Íhaldsflokksins tekur undir málflutning Martins og segist enn fremur ekki búast við neinni andstöðu við eftirfarandi skilyrði. „Maður á að taka við öllum pakkanum, og pakkinn inniheldur athöfn þar sem maður lýsir yfir tryggð og tekur í höndina á öðrum. Maður tekur í höndina í Danmörku,“ bætir Naser við.
Hvers vegna tekur fólk ekki í hendur?
Samkvæmt danska blaðinu Politiken er óþarfa snerting einstaklinga af gagnstæðu kyni utan hjónabands litin hornauga í íslam. Margir múslimar telja þann sið sýna litla viðringu, hógværð og heiður og kjósa því frekar að sleppa honum. Íslamski rithöfundurinn Aminah Tønnsen segir tregðu við að taka í höndina hins vegar ekki snúast um kynjafordóma eða virðingarleysi gagnvart þeim sem eru ekki múslimar.
Handabönd milli ókunnugra eru ekki einungis litin hornauga í íslam, en þau eru til dæmis bönnuð meðal strangtrúaðra gyðinga. Í öðrum Asíulöndum eru handabönd einnig ekki sérstaklega viðurkennd, sérstaklega ekki meðal fólks af gagnstæðu kyni. Þess í stað heilsast gjarnan fólk með því að hneigja sig. Á síðustu áratugum hafa handaböndin þó rutt sér til rúms meðal viðskiptamanna í Asíu eftir aukin samskipti við Vesturlandabúa, en á öðrum stöðum bera handabönd vott um virðingarleysi.
Fréttastofa BBC greindi frá því í gær að múslímsku pari hefði verið neitað um ríkisborgararétt í Sviss eftir að þau vildu ekki taka í höndina á embættismönnum þar í landi á meðan á viðtali þeirra stóð. Pierre-Antoine Hilbrand, meðlimur nefndarinnar sem tók viðtal við parið, sagði svissnesku stjórnarskrána tryggja rétt milli karla og kvenna og ríkja yfir „fordómum.“