Nasrin Sotoudeh mannréttindalögfræðingur hefur verið fangelsuð fyrir það að taka að sér mál konu sem mótmælti því friðsamlega að þurfa að ganga með slæðu – þ.e. hijab – í Íran. Nú á hún yfir höfði sér fimm ára dóm fyrir að „dreifa áróðri gegn kerfinu“ og að „leggja á ráðin gegn þjóðaröryggi“.
Frá þessu er greint á vefsíðu Amnesty á Íslandi en nú stendur yfir netákall þar sem þess er krafist að hún verði skilyrðislaust leyst úr haldi.
Samkvæmt Amnesty braust út hreyfing árið 2017 sem berst gegn því að konur í Íran séu skyldaðar til að ganga með slæður. Þá setti kona á svið táknrænan gjörning sem fól í sér mótmæli gegn þessari kvöð en það gerði hún með því að taka af sér slæðuna og setja á stöng sem hún veifaði hljóðalaust. Fjöldi kvenna í Íran fóru að fordæmi hennar og mótmæltu með sama hætti.
Konurnar sem þekktar eru sem „Stelpurnar af Byltingarstræti” hafa nú allar verið lögsóttar.
Í umfjöllun Amnesty segir að með því að handtaka og fangelsa Nasin hafi yfirvöld í Íran komið í veg fyrir að þær hafi aðgang að áhrifaríkum og reynslumiklum lögmanni.
„Konur eiga að geta ákveðið hverju þær klæðast og lögfræðingar ættu að geta varið réttindi þeirra. Þar sem Nasrin er fyrirmunað að verja konurnar frá því að fara í fangelsi, hyggst hún halda mótmælum sínum áfram á bak við lás og slá með því að fjarlægja af sér höfuðslæðuna þangað til henni er sleppt úr haldi,“ segir í umfjöllun Amnesty.
Nasrin hefur áður verið handtekin en árið 2010 var hún dæmd í sex ára fangelsi fyrir störf sín en sat inni í þrjú ár.