Tæplega helmingur eins árs barna sækja leikskóla hér á landi en miklu munar á hlutfalli eftir landsvæðum. Á Austurlandi sækja 69 prósent eins árs barna leikskóla og 68 prósent á Vestfjörðum. Hlutfall eins árs barna á leikskólum er lægst á Suðurnesjum, 11 prósent. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar.
Helgi Arnarson sviðsstjóri Fræðslusviðs Reykjanesbæjar segir í samtali við Kjarnann að þessar tölur komi sér ekki á óvart. „Við vitum að við erum eftirbátar varðandi það að taka svo ung börn inn á leikskóla og við höfum ekki getað stigið þau skref sem við vildum,“ segir hann. Viðmiðið í Reykjanesbæ er tveggja ára aldur.
Hann segir ástæðuna vera erfiða fjárhagsstöðu bæjarfélagsins og fordæmalausa fólksfjölgun. Kjarninn hefur áður fjallað um fólksfjölgun á þessu svæði en í Reykjanesbæ hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað um 17 prósent það sem af er árinu 2018. Þeir voru 3.650 um áramót en eru nú 4.270.
Þessi staða hefur gert það að verkum að breytingarnar á samsetningu íbúa í Reykjanesbæ hafa orðið meiri en áður hefur þekkst í íslensku samfélagi. Í lok árs 2011 bjuggu 14.140 manns í Reykjanesbæ en í dag búa þar 18.510 manns.
Helgi segir að ákveðin vinna sé í gangi til að bæta stöðu foreldra og til standi að lækka innritunaraldurinn á leikskólana. Svigrúm sé að myndast til að stækka fleiri leikskóla á svæðinu og þá vonast Helgi til að Reykjanesbær geti hjálpað foreldrum að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.
Leikskólakennarar eldast
Alls störfuðu 6.018 í leikskólum í desember 2017 og hafði fjölgað um 111, eða tæp tvö prósent, frá fyrra ári. Stöðugildum starfsmanna fjölgaði einnig tæp tvö prósent og voru 5.289, segir í frétt Hagstofunnar.
Í desember 2017 störfuðu 1.622 leikskólakennarar í leikskólum á Íslandi, eða 29,2 prósent starfsmanna við uppeldi og menntun barna, og hefur fækkað um 338 frá árinu 2013 þegar þeir voru flestir. Starfsmenn sem hafa lokið annarri uppeldismenntun, svo sem grunnskólakennaranámi, þroskaþjálfun, diplómanámi í leikskólafræðum eða leikskólaliðanámi voru 1.105 talsins. Ófaglærðir starfsmenn voru rúmlega helmingur starfsmanna við uppeldi og menntun leikskólabarna í desember 2017.
Aldursskipting leikskólakennara hefur verið að breytast á þann hátt að kennarar sem eru 50 ára og eldri verða sífellt stærri hluti kennarahópsins, samkvæmt Hagstofunni. Árið 2017 voru þeir rúm 42 prósent leikskólakennara en voru 26 prósent 10 árum áður.
Að sama skapi hefur leikskólakennurum undir fimmtugu fækkað, ekki aðeins þegar litið er á hlutfallstölur heldur líka þegar fjöldatölur eru skoðaðar. Tæplega 900 leikskólakennarar á aldrinum 30 til 49 ára störfuðu í leikskólum árið 2017 en þeir voru 1.142 þegar þeir voru flestir árið 2009.