Skuldabréfaútboði WOW air lýkur á þriðjudaginn 18. september kl. 14 á íslenskum tíma. Nú þegar liggur fyrir að útgáfan verður að lágmarki 50 milljónir evra. Skuldabréfin eru til þriggja ára og vextir eru níu prósent ofan á þriggja mánaða Euribor vexti, sem eru millibankavextir á evrumarkaði.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá WOW air. Þar kemur einnig fram að ekki verði veitt viðtöl vegna málsins að svo stöddu.
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, sendi tölvupóst á alla starfsmenn fyrirtækisins eftir hádegi í gærþar sem hann sagði að skuldabréfaútboði flugfélagsins miðaði vel áfram.
Skúli sagði í póstinum að unnið sé dag og nótt við að ljúka ferlinu og tryggja þannig langtíma fjármögnun WOW air. Endamarkið væri í augsýn og sagðist Skúli öruggur að það takist að ljúka útboðinu.
Skúli sagði útboðið á lokametrunum í síðustu viku og myndi ljúka öðru hvoru megin við liðna helgi. Upplýsingafulltrúi WOW air sagði hins vegar nú á þriðjudag að von væri á niðurstöðu í skuldabréfaútboðið í kringum komandi helgi.
Greint var frá því á miðvikudag að Skúli reyndi nú, ásamt stjórn félagsins og ráðgjöfum, að fá bankana, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankann, til að koma að fjármögnun félagsins og tryggja þar með rekstur félagsins.
Á undanförnum vikum hefur WOW Air reynt að tryggja fjármögnun upp á 50 til 100 milljónir evra, eða sem nemur allt að ríflega 13 milljörðum króna.
Norska verðbréfafyrirtækið Pareto hefur yfirumsjón með ferlinu, og hefur WOW Air kynnt áform og rekstur sinn fyrir erlendum fjárfestum. Ferlið hófst í lok mánaðarins, eins og fram hefur komið í fréttum og fréttaskýringum á vef Kjarnans. Greinendur Pareto spá því að tap WOW Air í ár verði 3,3 milljarðar króna, en rekstrarumhverfi flugfélaga hefur versnað töluvert að undanförnu, ekki síst vegna harðnandi samkeppni og vaxandi olíukostnaðar.
Fréttin verður uppfærð.