Konan sem sakar dómarann Brett Kavanaugh um kynferðisbrot fyrir meira en 30 árum síðan, hefur komið fram undir nafni. Konan, Christine Blasey Ford, 52 ára sálfræðingur, segir í samtali við Washington Post að í skólapartýi hafi drukkinn Kavanaugh haldið henni fastri í rúmi, káfað á henni og tekið fyrir munninn á henni til að koma í veg fyrir að hún öskraði.
Donald Trump Bandaríkjaforseti tilnefndi Kavanaugh í Hæstarétt í júlí síðastliðnum og standa yfirheyrslur þingsins yfir dómaranum nú yfir áður en tilnefningin verður staðfest.
Kavanaugh hefur neitað þessum ásökunum með öllu í gegnum yfirlýsingar frá Hvíta húsinu. Orðrómur um þessar ásakanir fór af stað fyrir helgi en nafn konunnar hefur hingað til verið óþekkt. Hvíta húsið hefur gefið út bréf frá 65 konum sem segjast þekkja dómarann frá því á skólaárum hans og geti vitnað til um karakter hans.
Búist er við því að það að Ford komi fram undir nafni muni að öllum líkindum auka þrýstinginn á að fresta atkvæðagreiðslunni sem staðfestir skipun Kavanaugh.
Kavanaugh er 53 ára gamall og starfar sem dómari við áfrýjunardómstól í Washington DC. Hann starfaði náið með George W. Bush á sínum tíma og tók meðal annars þátt í rannsókninni á samskiptum Bill Clinton Bandaríkjaforseta og Monicu Lewinsky auk þess sem hann var einn þeirra sem kom að endurtalningu atkvæða fyrir hönd Bush í forsetakosningunum árið 2000. Kavanaugh var á árum áður aðstoðarmaður Anthony Kennedy, hæstaréttardómarans sem lét nýlega af störfum og Kavanaugh tekur að öllum líkindum við af.