Ísland er í 2. sæti af 146 þjóðum þegar kemur að lífsgæðum og styrk félagslegra framfara samkvæmt nýjum lista Social Progress Imperative stofnunarinnar.
Ísland hækkar þetta árið þegar horft er til grunnþarfa en landið er í 1. sæti í tólf af 51 vísi listans. Samkvæmt listanum er hvergi í heiminum til dæmis meiri umburðarlyndi gagnvart minnihlutahópum en á Íslandi, þátttaka þeirra í samfélaginu er mest hér og ofbeldi í þeirra garð hvergi minna. Ísland er líka í efsta sætinu þegar kemur að jákvæðu viðhorfi til samkynhneigðra.
Einn helsti veikleiki Íslands samkvæmt úttekt SPI eru aftur á móti Umhverfisgæði þar sem Ísland er í 17. sæti á heildarlistanum. Það sem dregur einkunn landsins niður er meðhöndlun fráveitu en landið er í 30. sæti í þeim málaflokki. Enn frekar dregur slök frammistaða við verndun lífríkisins einkunnina niður en þar lendir landið samkvæmt úttekt SPI í 84. sæti á listanum, sem er langversta staða landsins þegar horft er til einstakra mælinga.
Kjarninn hefur áður fjallað um frárennslismál en sérfræðingar virðast flestir vera sammála um að fráveitumálum og skólphreinsun sé ábótavant í mörgum sveitarfélögum á Íslandi. Þrátt fyrir reglugerðir og lög hvernig fráveitumálum eigi að vera háttað er pottur brotinn víða varðandi þau málefni. Eitt brýnasta málið, tengt mengun vegna frárennslis, er svokallað örplast sem rennur með skólpi og fráveituvatni út í sjóinn óhindrað. Fleiri þættir hafa áhrif á mengun og mætti nefna aukna ferðamennsku, stóriðju og ofanvatnsmengun.
Fremur reglan en undantekningin að þéttbýli hunsi reglur
Tryggvi Þórðarson, vatnavistfræðingur hjá Umhverfisstofnun, sagði í viðtali við Kjarnann á síðasta ári að það væri fremur reglan en undantekningin að þéttbýli á landinu hefðu ekki uppfyllt lög og reglugerð um fráveitur og skóp þó að þau hefðu átt að vera búin að því í síðasta lagi árið 2005 en þá rann út síðasti fresturinn.
Tryggvi sagði að nauðsynlegar framkvæmdir væru dýrar og til dæmis væri vanalegt að veitukerfið væri einungis tvöfaldað um leið og verið væri að taka upp einhverja götuna og endurnýja í henni. Hann taldi að miðað við þróunina hingað til myndi líklegast taka einhverja áratugi fyrir sveitarfélögin að framfylgja kröfum laga og reglugerðar að fullu.
Að sögn Tryggva eru áhrif mengunar af völdum skólps misjöfn eftir því hversu viðkvæmur staðurinn í náttúrunni sem skólpið er leitt út í er. Hann sagði að mengunin færi líka eftir fjölda íbúaígilda eða svokölluðum persónueiningum sem geta verið talsvert fleiri en íbúarnir. Magn mengunarefnanna er metið út frá persónueiningum en ein persónueining jafngildir því sem einn maður lætur frá sér á einum sólarhring. Hann benti á að vegna atvinnurekstrar væri oft tvö til þrefalt meira af persónueiningum en íbúum.
Einnig eru bakteríur í skólpinu sem hafa ekki bein áhrif á vistkerfið en segja aðallega til um smithættu. Tryggvi sagði að kröfur væru um að saurbakteríur þyrftu að vera undir ákveðnum mörkum í vatni eftir losun. Kerfið væri viðkvæmast fyrir mengun af völdum næringarefna, þ.e. áburðarefna eða lífræns efnis. Ein helsta mengunin af völdum þessara efna er skólpmengun og taldi hann að þörf væri á úrbótum í þeim málum.
Ferðamennska eykur álag á kerfið
Fleiri þættir spila inn í skólpmengun og einn þeirra er fjölgun ferðamanna. Samkvæmt Ferðamálastofu komu 2.200.000 ferðamenn til landsins á síðasta ári og jókst um 24,1 prósent frá árinu áður. Einn ferðamaður sem dvelur á Íslandi er eins og einn íbúi eða ein persónueining; sama mengun kemur frá honum og venjulegum íbúa.
Tryggvi sagði í samtali við Kjarnann að ferðamennskan yki álagið á staðinn í náttúrunni þar sem skólpið er leitt út í og á hreinsistöðvarnar. Hann sagði að hreinsistöðvarnar næðu aldrei nema hluta af menguninni, mismikið eftir því hvort um eins þreps, tveggja þrepa eða ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa er að ræða. Öll umframmengun sem hreinsibúnaðurinn ræður ekki við slyppi því í gegn og kæmist út í umhverfið.
Annar þáttur sem Tryggvi benti á í sambandi við vanda með kerfið er vatnsnotkun hjá almenningi. „Ef ekki er hugsað um þetta og ef verið er að fara ósparlega með vatn og það notað í of miklu magni þá kostar það stærri leiðslur. Bæði vatnsleiðslur þar sem þarf að leiða vatnið inn í borgina og bæina og eins í lögnunum fyrir frárennsli,“ sagði hann. Kostnaður væri gríðarlegur í stórum hreinsistöðvum en sá kostnaður miðaðist við vatnsmagnið en ekki beint mengun vatnsins. Hann sagði að þannig myndi umfangið aukast vegna aukavatns á öllum búnaði bæði í lögnum og í hreinsibúnaði væri hann til staðar.
Örplast fannst í neysluvatni Reykvíkinga
Í frétt Kjarnans frá því í byrjun febrúar á þessu ári segir að í vatnssýnum sem safnað var úr vatnsveitu Veitna í Reykjavík hafi komið í ljós að 0,2 til 0,4 plastagnir hafi fundist í hverjum lítra vatns. Samkvæmt tilkynningu frá Veitum eru þetta mun betri niðurstöður en birtar voru í erlendri skýrslu um örplast í neysluvatni sem var í fréttum hér á landi á síðasta ári. Sérfræðingur sem Kjarninn talaði við sagði að þrátt fyrir jákvæðar niðurstöður þá bæri að taka þær alvarlega. Frekari rannsókna væri þörf.
Örplast er heiti á plastögnum sem eru minni en 5 millimetrar að þvermáli. Örplast getur annars vegar verið framleitt örplast, sem til dæmis finnst í snyrtivörum, eða örplast sem verður til við niðurbrot, til að mynda úr dekkjum, innkaupapokum eða fatnaði.
Niðurstöður mælinga Veitna samsvara því að 1 til 2 slíkar agnir finnist í 5 lítrum vatns. Tekin voru stór sýni, eða 10 til 150 lítrar. Kom fram í fyrrnefndri erlendri skýrslu að 83 prósent þeirra 159 sýna sem hún byggir á, og tekin voru víðs vegar í heiminum, innihéldu að meðaltali tuttugufalt og allt að 400-falt magn plastagna miðað við það sem fannst í neysluvatni Reykvíkinga.
Lifum ekki í einangruðum heimi
Hrönn Jörundsdóttir, sviðsstjóri og sérfræðingur hjá MATÍS, sagði í samtali við Kjarnann að nauðsynlegt væri að finna uppsprettu örplasts, þ.e. hvaðan það komi. Hún sagði að þau hjá MATÍS væru að skoða þessi mál og að til stæði að birta skýrslu um örplast á Íslandi í náinni framtíð.
Varðandi niðurstöður úr sýnatöku Veitna þá sagði hún að það væri jákvætt að lítið örplast hafi greinst í sýnunum en á hinn bóginn þá væri það áhyggjuefni að plastagnir hafi fundist yfirhöfuð. Þetta sýndi að örplast sé víðar en fólk geri sér grein fyrir. „Það verður að taka þetta alvarlega, við erum ekki laus við þetta í okkar umhverfi frekar en aðrir,“ sagði hún og bætti því við að Íslendingar lifi ekki í einangruðum heimi og að þetta snerti okkur öll.