Þingmenn úr öllum flokkum sem sæti eiga á Alþingi hafa lagt fram frumvarp sem á að koma böndum á starfsemi smálánafyrirtækja með því að setja sérlög um slíka starfsemi.
Verði frumvarpið að lögum verður settur skýr rammi um starfsemi smálánafyrirtækja, þau skylduð til að sækja um starfsleyfi til Fjármálaeftirlitsins og uppfylla tilteknar skipulagskröfur. Aðeins þeir aðilar munu geta fengið starfsleyfi sem uppfylla tiltekin skilyrði og starfa á grundvelli laga um neytendalán um árlega hlutfallstölu kostnaðar. Á meðal þeirra skilyrði sem sett verða, verði frumvarpið að lögum, er að smálánafyrirtæki verða að greiða 600 þúsund króna eftirlitsgjald til Fjármálaeftirlitsins, einungis einstaklingar og lögaðilar sem búsettir eru á Íslandi geta stofnað smálánafyrirtæki með ákveðnum undantekningum, krafa verður sett um að hlutafé smálánafyrirtækis verði að lágmarki ein milljón evra (um 130 milljónir króna),
Gríðarleg aukning í töku smálána
Kjarninn greindi frá því í febrúar síðastliðnum að hlutfall ungs fólks, á aldrinum 18 til 29 ára, sem leitar til embættis Umboðsmanns skuldara í greiðsluvanda vegna smálána hefur margfaldast á síðustu árum.
Í tölum frá Umboðsmanni skuldara kom fram að heildarskuldir þessa hóps rúmlega námu árið 2012 alls um 18 milljörðum, sem voru mest til komnar vegna húsnæðislána, eða 11 milljarðar. Aðeins tæplega 14 milljóna smálánaskuldir voru í þessum aldurshópi árið 2012.
Á síðasta ári voru heildarkröfur á þennan hóp rúmlega 5,5 milljarður, þar af 1,5 milljarður vegna húsnæðislána, en smálánin voru komin upp í tæplega hundrað milljónir.
Hlutfall þeirra sem leituðu í fyrra til umboðsmanns skuldara og áttu útistandandi smálánaskuld var 43 prósent. Árið 2012 var þetta hlutfall rúmlega sex prósent. Aðrar skuldir geta verið ýmis konar, skuldir vegna reksturs húsnæðis, sektir og sakarkostnaður og önnur neyslulán eins og til að mynda yfirdráttarlán.
Í minnisblaði frá umboðsmanni skuldara sem vísað er í í greinargerð frumvarpsins er að finna greiningu á smálánaskuldum hjá umsækjendum um úrræðið hjá umboðsmanni skuldara. Þar kemur fram að í aldurshópnum 18–29 ára hafi 76 af 109 umsækjendum árið 2017 tekið smálán eða um 70 prósent umsækjenda, en á árinu 2016 höfðu 39 af 63 eða 62 prósent tekið smálán.