Líkt og landsmenn vita hefur verið mikill vöxtur í ferðaþjónustu hér á landi, ferðamönnum hefur fjölgað úr um hálfri milljón í 2,2 milljónir árið 2017 og má búast við enn meiri fjölgun í ár. Þjónusta þarf þessar tvær milljónir ferðamanna en 10.888 þúsund innflytjenda starfa við ferðaþjónustu hér á landi. Af þeim starfa 7694 innflytjendur við rekstur veitingastaða og gistihúsa. Þetta kemur fram í nýjustu tölum Hagstofunnar.
Um mitt ár 2018 voru alls 38.657 starfandi innflytjendur á Íslandi eða rúm 19 prósent af heildar vinnuafli Íslands. Sá fjöldi er rúmlega fjórum sinnum það sem hann var í upphafi árs 2005 og tvöfaldur það sem hann var í byrjun árs 2015, fyrir þremur og hálfu ári. Frá byrjun árs 2017 hefur innflytjendum á íslenskum vinnumarkaði fjölgað um 11.544 og á fyrstu sex mánuðum ársins 2018 fjölgaði þeim um 5.310.
Á Íslandi starfa tæplega 200 þúsund manns á aldrinum 16 til 74 ára, það er 11,8 prósent hækkun á 10 árum. Fjölgun starfsfólks á síðustu tíu árum var mest í ferðaþjónustu en sú fjölgun er 98,5 prósent. Stór hluti af þeirri fjölgun er erlent vinnuafl en þeir eru tæplega helmingur þeirra sem starfa við rekstur veitingahúsa og gistihúsa hér á landi eða 41,9 prósent.
Nýja góðærið
Gríðarleg uppbyggingin hefur átt sér stað hér á landi síðustu 10 ár en hún hefur útheimt miklar framkvæmdir við byggingu til að mynda hótela og þar af leiðandi líka mikið vinnuafl. Þetta vinnuafl var ekki til staðar á Íslandi og því þurfti að sækja það til annarra landa. Það – ásamt mikilli aukningu í ferðaþjónustu – hefur leitt til hraðrar fjölgunar erlends vinnuafls hér á landi eins og greint var hér að ofan.
Í síðustu viku greindi Kjarninn frá því að um 90 prósent allra nýrra skattgreiðanda á Íslandi í fyrra voru erlendir ríkisborgarar. Þeim hefur fjölgað rúmlega 60 sinnum hraðar og átta sinnum meira en íslenskum skattgreiðendum á skrá á milli áranna 2016 og 2017. Þeir eru nú 15,1 prósent þeirra sem greiða hér til samneyslunnar. Samhliða mikilli fjölgun útlendinga hafa greiðslur sveitarfélaga vegna félagslegrar framfærslu dregist saman um þriðjung á nokkrum árum. Atvinnuleysi er neikvætt þegar leiðrétt er fyrir innfluttu vinnuafli og kaupmáttur launa hefur vaxið um 25 prósent á örfáum árum.
Brotið á réttindum innflytjenda
Í nýjasta fréttaskýringaþætti Kveiks, sem vakti mikla athygli í síðustu viku, var fjallað um hvernig atvinnurekendur á Íslandi hafa í röðum brotið á erlendu starfsfólki. Mörg dæmi eru um það hér á landi að ekki sé borgað í samræmi við kjarasamninga og ef laun eru rétt greidd þá sé reynt að ná launum til baka með því að rukka starfsmenn um of háan húsnæðiskostnað, líkamsræktarkostnað og fyrir bifreiðarnotkun. Þar með er réttindum skipulega haldið frá erlendu verkafólki. Í þættinum kom enn fremur fram að innflytjendur viti oft ekki hvort verið sé að brjóta á sér eða viti ekki hvert þeir eigi að leita.