Íslendingum þykir bæting velferðarkerfisins og aukinn jöfnuður í samfélaginu mikilvægustu málefnin samkvæmt nýrri könnun EMC. Í henni var kannað hvað Íslendingar teldu vera mikilvægustu málefnin um þessar mundir, en úrtakið var 800 manns.
Flestir nefndu bæting velferðarkerfisins sem mikilvægasta málefnið eða 64,1 prósent í heildina. Fast á hæla þess þótti málefnið að draga úr fátækt og auka jöfnuð í samfélaginu mikilvægast eða rúmlega 60 prósent. Þar á eftir kom skynsamleg nýting náttúruauðlinda, verndun umhverfisins og takmörkun spillingar. Málefnið sem skoraði lægst er bætt móttaka flóttamanna með aðeins 17,6 prósent. Aðeins 19,3 prósent sögðu aukinn hagvöxt mikilvægasta málefnið.
Töluverðan mun má greina á afstöðu fólks eftir bakgrunnsbreytum en breyturnar voru kyn, búseta, aldurshópur og hvað myndiru kjósa núna. Konur eru líklegri en karlar til að nefna umhverfismál, takmörkun spillingar, aukið kynjajafnrétti og minnkun fíkniefnanotkunar. Yngra fólk leggur meiri áherslu en það eldra á bætt velferðarkerfi, umhverfismál, lækkun skatta og aukið jafnrétti kynjanna.
Talsverður munur eftir flokkum
Áhugavert er að sjá að í niðurstöðum könnunarinnar voru mikilvægustu málefninin annað hvort bæting velferðarkerfisins eða að draga úr fátækt/auka jöfnuð hjá öllum flokkum.
Þeim flokki sem fannst mikilvægasta að lækka skatta er Flokkur fólksins eða um 66 prósent. Það málefni þótti einnig mikilvægt hjá stuðningsmönnum Miðflokksins eða um 54 prósent og hjá Sjálfstæðisflokknum þóttu 43,5 prósent þeirra sem myndu kjósa flokkinn það mikilvægast að lækka skatta.
Rúmlega helmingur stuðningsmanna Miðflokksins þótti mikilvægast að takmarka fjölda innflytjenda eða 52,5 prósent. En það að takmarka innflytjendur þótti aðeins 4 prósent stuðningsmönnum Samfylkingarinnar mikilvægast.
Takmörkun spillingar mikilvæg
Landsmönnum þótti einnig málefnið takmörkun spillingar mikilvægt en í heildina svöruðu 49 prósent því sem einu af mikilvægustu málefnunum. Það þótti mikilvægast hjá stuðningsmönnum Pírata 67,7 prósent en það þótti einnig mjög mikilvægt hjá Flokki Fólksins eða 64,2 prósent.
Píratar og stuðningsmenn VG leggja mestu áherslu á jafnrétti kynjanna. Stuðningsmenn Samfylkingarinnar ásamt stuðningsfólki Viðreisnar og Pírata leggja mesta áherslu á skynsamlega nýtingu náttúrauðlinda.
Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Miðflokksins lögðu mikla áherslu á minnkun fíkniefnanotkunar en á hinn bóginn þótti Píratar ólíklegastir til að telja mikilvægast að draga úr fíkniefnanotkun.