Að jafnaði hafa 71 prósent nýrra vergra íbúðalána verið verðtryggð frá ársbyrjun 2013 til ársbyrjun 2018. Verg íbúðalán eru þau lán sem eru veitt í hverjum mánuði án tillits til umfram- eða uppgreiðslna á eldri lánum. Svo virðist sem íslensk heimili kjósi frekar að taka verðtryggð en óverðtryggð íbúðalán og hafa gert það undanfarin ár.
Óverðtryggð íbúðalán hafa nú verið í boði hér á landi hátt í áratug og aukið úrval á íbúðalánamarkaði til muna en erfiðara getur verið fyrir tekjulægri heimili að taka þau lán. Í heild voru verg ný íbúðalán til heimilanna 421 milljarðar árið 2017 og þar af voru 129 milljarðar óverðtryggðra lána.
Um mitt ár 2015 var hlutdeild óverðtryggðra lána áberandi mikil sem má ef til vill setja í samhengi við þá staðreynd að um það leyti hækkuðu verðbólguvæntingar og vextir óverðtryggðra lána tímabundið. Árið 2016 var hlutdeild verðtryggðra lána áberandi mikil en þá var verðbólga mjög lág og verðbólguvæntingar fóru lækkandi. Í febrúar síðastliðnum var hlutdeild verðtryggðra lána 67 prósent. Frá þessu er greint í mánaðarlegri skýrslu Íbúðalánasjóðs um húsnæðismál.
Jafnara hlutfall í hreinum nýjum lánum
Ef skoðað eru hreinu íbúðalánin þ.e. ný útlán að frádregnum umfram- og uppgreiðslulánum þá voru 51,9 prósent hreinna nýrra lána óverðtryggð fyrstu átta mánuði ársins. Til samanburðar voru óverðtryggð lán 37 prósent allra hreinna lána til heimila árið 2017. Frá árinu 2013 til 1 ágúst 2018 þá er að jafnaði hlutfallið á milli óverðtryggðra og verðtryggðra íbúðalána 56,2 prósent á móti 43,8 prósent óverðtryggðra. Sem þýðir að hlutfallið á milli verðtryggðra og óverðtryggðra hreinna nýrra lána sé nokkuð jafnt í heildina á síðustu 5 árum. Hrein ný lán voru 108,3 milljarður króna á fyrstu sjö mánuðum ársins og þar af voru 56,2 milljarðar króna óverðtryggð lán og 52,1 milljarður króna verðtryggð.
Verðtryggð lán algengari
Ef borin er saman þróunin á milli hlutfallanna í hreinum lánum og vergum lánum þá má sjá að á síðustu árum hefur þróunin verið mun sveiflukenndari milli verðtryggrða og óverðtryggðra lána í hreinu lánunum heldur en í vergum lánunum. Þó hafa verðtryggð lán í heildina verið algengari en óverðtryggð á síðustu fimm árum, bæði ef reiknað er með umfram- og uppgreiðslum og án þeirra.
Lífeyrissjóðirnir bjóða betri kjör
Í öðru ársfjórðungsriti Peningamála 2018 var greint frá því hvernig lífeyrissjóðirnir leiða vöxtinn í útlánum til heimila. Lífeyrissjóðir voru 17,5 prósent af útlánum til heimila á öðrum fjórðung ársins. Leiðrétt fyrir áhrifum skuldalækkunaraðgerða stjórnvalda stækkaði stofn útlána lánakerfis til heimila um 5,7 prósent á fyrsta fjórðungi ársins. Er það lítillega meiri aukning en var á fjórðungunum tveimur þar á undan.
Lífeyrissjóðir bjóða nú betri kjör en bankar á húsnæðislánum til heimila og má því gera ráð fyrir því að það sé grundvallarástæða þess að fólk leitar frekar til þeirra en banka þegar það kemur að húsnæðislánum. Hjá flestum lífeyrissjóðum landsins eru vextir á óverðtryggðum lánum töluvert lægri en hjá bönkunum, sem þó lána fyrir stærri hluta kaupverðsins, eða allt að 85 prósent, í flestum tilvikum. Ekki bjóða þó allir lífeyrissjóðir upp á óverðtryggð lán og fer það eftir lífeyrissjóðum hvort þeir bjóði upp á fasta vexti eða breytilega vexti.
Erfiðara að taka óverðtryggð lán
Það getur verið erfiðleikum bundið fyrir tekjulægri heimili og ungt fólk að taka óverðtryggð lán þar sem greiðslubyrðin er töluvert þyngri í upphafi, vaxtahækkanir hafa einnig meiri skammtímaáhrif á greiðslubyrðina og því eru kröfur um greiðsluhæfi hærri.