Reykjanesbær hefur hafnað beiðni Útlendingastofnunar um að veita fleiri hælisleitendum þjónustu og þar með að stækka núgildandi samning bæjarins við stofnunina. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir að bærinn hafi ekki verið tilbúinn að verða við beiðninni vegna þess að íbúum hafi fjölgað mikið auk þess sem svæðið sé „mettað af hælisleitendum“. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Kjartan segir Reykjanesbæ þjónusta allt að 70 til 80 hælisleitendur á hverjum tíma og leggi áherslu á fjölskyldufólk. En Kjartan segir að vegna þess hversu mikið íbúum bæjarins hafa fjölgað þá sé ekki í boði þjónustan sem hælisleitendur þarfnast. „Þannig að við vildum ekki taka áhættuna og taka við allt of mörgum hælisleitendum. Ef það kæmi fullt af börnum þá eigum við svo fá pláss í leik- og grunnskólum til þess að taka við þeim,“ segir Kjartan.
Hröð íbúafjölgun í Reykjanesbæ
Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað mikið á Íslandi síðustu ár en mismunandi er hvar á landinu þeir setjast að. Hlutfallslega setjast langflestir þeirra að í Reykjanesbæ en fjöldi erlendra ríkisborgara þar hefur tæplega fjórfaldast á örfáum árum. Í Reykjanesbæ voru erlendir ríkisborgarar 8,6 prósent íbúa í lok árs 2011 en í júlí 2018 voru erlendir ríkisborgarar 23 prósent. Vert er að taka fram að þorri þeirra erlendru ríkisborgara sem flytja til landsins koma hingað til að starfa og eru ekki hælisleitendur
Reykjanesbær þjónustar hinsvegar einnig hælisleitendur en þeir geta verið allt 70 að hverjum tíma og útvegar þeim húsnæði auk annarrar þjónustu. Þeir hælisleitendur dvelja í bænum á meðan þeir bíða eftir afgreiðslu hælisumsóknar sinnar. Núgildandi samningur Útlendingastofnunar við Reykjanesbæ kveður á um að stofnunin greiði Reykjanesbæ daggjald að upphæð 7.500 krónur á sólarhring fyrir hvern hælisleitanda, auk fastagjalds sem nemur um 11,5 milljónum króna, sem á að standa straum af launa- og rekstrarkostnaði.
„Íbúafjölgunin hefur verið svo mikil að við höfum ekki getað byggt upp þjónustu eins hratt og við myndum vilja. Svo eru ríkisstofnanir eins og sjúkrahús og heilsugæsla líka langt á eftir í fjárveitingum. Þetta fólk þarf mikla þjónustu og mikla aðstoð fyrstu mánuðina og við teljum svæðið mettað af hælisleitendum. Þess vegna beinum við óskum og tilmælum til annarra sveitarfélaga á Íslandi að taka sinn hluta af þessari samfélagslegu ábyrgð,“ segir Kjartan.
Útlendingastofnun stækkar við sig
Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, segir í samtali við Morgunblaðið að stofnunin þurfi að stækka við sig vegna fjölgunar hælisumsókna. Stofnunin hefur fengið húsnæði í Reykjanesbæ til að standa straum af fjölda umsókna. „Við erum með samninga við þrjú sveitarfélög en þeir samningar hafa ekki náð yfir þann fjölda sem hefur komið undanfarin ár. Þar af leiðandi höfum við verið að sjá um rekstur úrræða,“ segir Þórhildur. „Okkur ber skylda til að sjá fólki fyrir húsnæði og þjónustu ef það getur það ekki sjálft.“
Reykjanesbær samþykkti ekki tillöguna eins og áður sagði en Þórhildur segir að þótt svo hafi verið þá breyti það ekki áformum stofnunarinnar um nýtingu húsnæðisins til þjónustu fyrir hælisleitendur. „Við eigum í mjög góðu samstarfi við Reykjanesbæ og erum með samning við þau um þjónustu við umsækjendur um vernd. Að okkar mati er betra að sveitarfélögin sinni þessu hlutverki heldur en Útlendingastofnun, sérstaklega þjónustu við fjölskyldur. Það sem felst í þjónustunni er margt af því sem sveitarfélögin eru með á sinni könnu og þau eru með starfsfólk sem er með mikla reynslu og þekkingu á sviði félagsþjónustu,“ segir Þórhildur.