Afgreiðslu var frestað á erindi Stakksberg ehf. á bæjarstjórnarfundi Reykjanesbæjar í gær. Erindið var fyrst tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar í síðustu viku en erindinu var hafnað. Erindið snerist um beiðni Stakksbergs ehf. um að skipulags- og matslýsing félagsins vegna umbóta á verksmiðju félagsins í Helguvík yrði tekin til meðferðar. Einnig var óskað eftir heimild til að vinna að deiliskipulagsbreytingum í samræmi við ofangreinda skipulags- og matslýsingu.
Umhverfis- og skipulagsráð er hins vegar aðeins ráðgefandi og því þurfti bæjarstjórn Reykjanesbæjar að staðfesta niðurstöðu þeirra en samkvæmt tilkynningu Stakksbergs var afgreiðslu erindisins frestað í því skyni að sveitarfélagið gæti aflað frekari upplýsinga frá Skipulagsstofnun, auk þess að vinna nánari greiningu á málinu.
Í tilkynningu Stakksberg kemur fram að félagið fagni því að bæjarstjórnin ætli að vanda skoðun sína á erindi félagsins. Jafnframt kemur fram að félagið ætli að vinna áfram að mati á umhverfisáhrifum í samræmi við úrbótaáætlun. Félagið ítrekar að það telji rétt að þessir tveir ferlar, ferill bæjarstjórnar og ferill félagsins, verði unnir samhliða til þess að tryggja aðkomu almennings og hagsmunaaðila á fyrstu stigum skipulagsferilsins.
Þórður Ólafur Þórðarson, stjórnarformaður Stakksbergs, segist í samtali við Kjarnann ekki vita hverjar ástæður þess voru að beiðninni var hafnað í umhverfis- og skipulagsráði en hann telur að bæjarstjórn hafi frestað niðurstöðunni til að geta varpað skýrara ljósi á ferlið, bæði matsáætlunina og réttarstöðu sveitarfélagsins.
Nauðsynlegar úrbætur á verksmiðju
Stakksberg ehf. er nýr eigandi kísilversins í Helguvík. Félagið er í eigu Arion banka sem tekið hefur yfir kísilverksmiðjuna í Helguvík af þrotabúi United Silicon ehf. Umhverfisstofnun komst að þeirri niðurstöðu í janúar síðastliðnum að verksmiðjan í Helguvík uppfyllti ekki skilyrði fyrir starfsleyfi. Í tilkynningu frá félaginu kom fram að markmið Stakksberg væri að gera allar þær úrbætur sem nauðsynlegar væru til að uppfylla kröfur Umhverfisstofnunar.
Kísilverið í Helguvík er fyrsta kísilmálmverksmiðjan sem hefur verið gangsett á Íslandi. En fyrsti ljósbogaofninn í verksmiðjunni fór af stað 13. nóvember 2016. Fljótlega fór að bera á mikilli óánægju hjá íbúum í Reykjanesbæ með mengun frá verksmiðjunni. Margir fundu fyrir töluverðum líkamlegum einkennum vegna þessa og voru meðal annars haldnir fundir þar sem fólk deildi sögum sínum og kvartaði undan menguninni.
Í apríl 2017 tilkynnti Umhverfisstofnun forsvarsmönnum United Silicon að ekki yrði hjá því komist að loka verksmiðjunni vegna mengunar sem frá henni streymdi. Í kjölfarið voru veittir frestir en starfsemin var endanlega stöðvuð 1. september 2017 og framleiðsla hefur legið niðri síðan. Eins og fram kemur hér að ofan er Stakksberg nýr eigandi versins.
Hver er staðan á umhverfismatinu?
Í sumar auglýsti Stakksberg drög að tillögu að skipulag- og matslýsingu vegna nýs umhverfismats kísilverksmiðjunnar. Í matslýsingu tilgreinir félagið þá þætti sem meta skal í umhverfismatinu. Matslýsingu er sem sagt byrjunin á umhverfismatsferlinu.
Stakksberg birti drög að matslýsingunni í júní síðastliðnum og fékk þá yfir 112 athugasemdir frá almenningi og ýmsum stofnunum. Samkvæmt Stakksberg var síðan unnið úr þeim athugasemdum og bætt matsáætlun var send til Skipulagsstofnunar en Skipulagsstofnun sinnir stefnumótun, stjórnsýslu og leiðbeiningum um skipulag og framkvæmdir með sjálfbæra nýtingu auðlinda að leiðarljósi. Niðurstaða Skipulagsstofnunar liggur ekki fyrir en aðspurður telur Þórður Ólafur að niðurstaðan muni liggja fyrir bráðlega.
Ef matslýsingin er síðan samþykkt á bæjarstjórnarfundi þá fer hið eiginlega umhverfismat af stað. Í umhverfismatinu er farið efnislega ofan í þá þætti sem tilgreindir voru í matsáætluninni. Sú skýrsla er síðan birt opinberlega en Þórður Ólafur segir í samtali við Kjarnann að búast megi við þeirri skýrslu í byrjun árs, ef allt gengur eftir. Hann segir jafnframt að á því stigi geti almenningur komið með athugasemdir við umhverfismatið og í framhaldinu verði matið aðlagað að athugasemdum.