Ætla má að íbúar landsins verði 436 þúsund árið 2067, bæði vegna fólksflutninga og af náttúrulegum ástæðum, samkvæmt spá Hagstofunnar um þróun mannfjöldans. Íslendingar voru til samanburðar 348 þúsund í byrjun árs 2018.
Íslenska þjóðin ung
Íslenska þjóðin er að eldast líkt og flestar Evrópuþjóðir en þá eru Íslendingar nú og verða áfram yngri en flestar Evrópuþjóðir samkvæmt skýrslu Hagstofunnar. Árið 2060 verður meira en þriðjungur Evrópubúa eldri en 65 ára en einungis um fjórðungur Íslendinga. Hinn fyrsta janúar 2017 var 27 prósent af mannfjölda Evrópusambandsins yngri en 25 ára, en elsti aldurshópurinn (65 ára og eldri) nam 19 prósentum. Á Ísland eru hins vegar 33 prósent yngri en 25 ára og elsti aldurshópurinn 4 prósent af íbúum.
Flestar Evrópuþjóðir eru að lenda í vandræðum vegna þess að samsetning þjóða þeirra er að breytast og þeir eldri eru að verða fleiri en yngri. En nauðsynlegt er að hafa ungt fólk í landi til þess að standa undir hinum yngri og hinum eldri. Gert er ráð fyrir að fólk á vinnualdri (skilgreint á aldursbilinu 20 til 65 ára) standi undir framfærslu annars vegar þeirra sem eru yngri en 20 ára og hins vegar þeirra sem eru eldri en 65 ára.
Á Íslandi hefur framfærsluhlutfall ungs fólks verið hærra en framfærsluhlutfall þeirra sem eldri eru, að hluta til vegna þess hversu hátt hlutfall erlendra ríkisborgara er hér á landi. Samkvæmt spám Hagstofunnar snýst þetta við árið 2044 en þá verður í fyrsta sinn fleira eldra fólk en yngra.
Erlendir ríkisborgarar halda Íslendingum ungum
Samkvæmt tölum Hagstofunnar verða aðfluttir áfram fleiri en brottfluttir á hverju ár fyrst og fremst vegna erlendra innflytjenda. Íslenskir ríkisborgarar sem flytjast frá landinu verða áfram fleiri en þeir sem flytjast til landsins.
Erlendum ríkisborgurunum hefur fjölgað mikið á Ísland en um mitt ár 2018 voru alls 38.657 starfandi innflytjendur á Íslandi eða rúm 19 prósent af heildarvinnuafli Íslands. Sá fjöldi er rúmlega fjórum sinnum það sem hann var í upphafi árs 2005 og tvöfaldur það sem hann var í byrjun árs 2015, fyrir þremur og hálfu ári.
Gríðarleg uppbyggingin hefur átt sér stað hér á landi síðustu 10 ár en hún hefur útheimt mikið vinnuafl. Þetta vinnuafl var ekki til staðar á Íslandi og því þurfti að sækja það til annarra landa. Stærsti hluti þeirra sem kemur hingað til lands er ungt fólk. Erlendir ríkisborgarar á meðal íslenskra skattgreiðenda hafa aldrei verið jafn margir og þeir voru í lok síðasta árs. Um 90 prósent allra nýrra skattgreiðanda á Íslandi í fyrra voru erlendir ríkisborgarar. Þeim hefur fjölgað rúmlega 60 sinnum hraðar og átta sinnum meira en íslenskum skattgreiðendum á skrá á milli áranna 2016 og 2017. Þeir eru nú 15,1 prósent þeirra sem greiða hér til samneyslunnar.
Erlent vinnuafl á Íslandi hefur því ekki aðeins aukið hagsæld landsins heldur hefur það einnig yngt upp þjóðina. Líkt og kemur fram hér að ofan þurfa þjóðir fólk á vinnualdri til að standi undir framfærslu yngstu og elstu hóp landsins. Þess vegna er mikilvægt fyrir Ísland að fá erlenda ríkisborgra til að vinna hér á landi og borga skatta. Það heldur þjóðinni ungri.
Fleiri karlar en konur á Íslandi
Undanfarin ár hafa mun fleiri karlar en konur flust til landsins, í ársbyrjun 2018 voru 1.030 karlar á hverjar 1.000 konur. Samkvæmt tölum Hagstofunnar verða karlar fleiri en konur á hverju ári næstu 50 árin. Samkvæmt Hagstofunni er þróun kynjahlutfalls hér á landi um margt athyglisverð, hún er samspil af mörgum þáttum. Fleiri drengir en stúlkur fæðast á hverju ári, fjölda fæðinga, mismunandi dánartíðni kynjanna, ólíkum lífslíkum kynjanna og ólíkri hegðun kynjanna hvað varðar búferlaflutninga. Frá lokum síðustu aldar hafa búferlaflutningar haft mest áhrif á kynjahlutfallið. Í flestum Evrópuríkjum eru færri karlar en konur.
Samkvæmt Hagstofunni munu fleiri fæðast en deyja á hverju ári frá og með árinu 2061. Meðalævi karla og kvenna við fæðingu mun halda áfram að lengjast. Nýfæddar stúlkur árið 2018 geta vænst þess að verða 83,9 ára gamlar en nýfæddir drengir 79,8 ára. Stúlkur sem fæðast árið 2067 geta vænst þess að verða 88,7 ára en drengir 84,4 ára.