Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði fram frumvarp til breytingar á lögum um ráðherraábyrgð í gær. Með henni voru flutningsmenn úr öllum fimm stjórnarandstöðuflokkunum. Frumvarpið kveður á um ábyrgð ráðherra gagnvart Alþingi ef hann greinir rangt frá, gefur þingmönnum og þinginu villandi upplýsingar eða leynir upplýsingum sem mikilvægar eru fyrir meðferð mála á Alþingi.
Sambærileg frumvörp hafa verið lögð fram áður, síðast á síðasta löggjafarþingi en hafa ekki farið í efnislega umræðu á þingi. Í greinargerðinni kemur fram að málið nú lagt fram að nýju sem liður í því að styrkja þingræðið og eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu.
Brot gegn upplýsingaskyldu varðar viðurlög
Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að það er grundvallarforsenda lýðræðis að þjóðkjörnir fulltrúar hafi réttar upplýsingar til þess að byggja ákvarðanatöku sína á. Rangar upplýsingar geta hæglega leitt til þess að þingið komist að annarri niðurstöðu en ella. Þá getur skortur á upplýsingagjöf leitt til trúnaðarbrests milli þings og ráðherra. Til að Alþingi megi sinna eftirlitshlutverki sínu sem skyldi er afar mikilvægt að þingmenn fái nægilegar, réttar og greinargóðar upplýsingar um þau mál sem eru til umfjöllunar hverju sinni.
Til að undirstrika mikilvægi upplýsingaskyldu ráðherra til Alþingis er í frumvarpi þessu lagt til að brot gegn henni, í formi rangra eða villandi upplýsinga eða leynd upplýsinga er hafa verulega þýðingu við meðferð máls, varði viðurlögum samkvæmt almennum skilyrðum laga um ráðherraábyrgð.
Ráðherraábyrgð
Lög um ráðherraábyrgð eru að stofni til frá 1963 og hefur lítið verið breytt frá þeim tíma. Þau kveða á um ábyrgð ráðherra á stjórnarframkvæmdum og hvenær megi krefja ráðherra ábyrgðar. Meginreglan er sú að það skuli gert ef ráðherra hefur annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu.
Lög um ráðherraábyrgð taka ekki sérstaklega til ábyrgðar ráðherra varðandi upplýsingagjöf til Alþingis. Ákvæði 54. gr. stjórnarskrárinnar tryggir þingmönnum rétt til að óska upplýsinga frá ráðherrum. Hefur ákvæðið verið talið fela í sér rétt þingmanna til fyrirspurna og skýrslubeiðna. Í því felst hins vegar ekki almenn upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra gagnvart Alþingi. En frumvarpið kveður á um að bætt verður við nýjum staflið við 10.gr laga um ráðherraábyrgð:ef hann gefur Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða leynir upplýsingum er hafa verulega þýðingu við meðferð máls á Alþingi.
Alþingi náði ekki að rækja eftirlitshlutverk sitt fyrir hrun
Ein af ábendingum í rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 var að Alþingi hefði ekki náð að rækja eftirlitshlutverk sitt með handhöfum framkvæmdarvaldsins með öflugum hætti. Undir þetta tók þingmannanefnd sem fjallaði um skýrsluna. Lögð var áhersla á að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu og m.a. lagt til að þingskapalög, lög um ráðherraábyrgð og Landsdóm yrðu endurskoðuð með þetta að leiðarljósi.