Facebook fann og fjarlægði 82 falskar facebook-síður og hópa sem tengdust Íran í síðustu viku. Síðurnar þóttust vera frjáslyndir Bandaríkjamenn eða Bretar og birtu myndir og stöðufærslur um umdeild pólitísk málefni. Hóparnir hétu nöfnum líkt og „Wake Up America“ og „Thirst for truth“. Frá þessu var greint á fréttaveitu Facebook síðasta föstudag.
Samkvæmt tilkynningunni tengjast allar þessar síður Íran og eru sumir aðilarnar þeir sömu og tengdust falsaðgöngunum sem Facebook fjarlægði í ágúst á þessu ári. Þá voru hundruð síðna og hópa, sem voru tengdir Íran og Rússlandi, fjarlægð af samfélagsmiðlinum.
Umtalaðar síður hafa birt myndir og stöðuuppfærslur um umdeild pólitísk málefni og sem dæmi má nefna kynþáttaerjur, andstöðu við Donald Trump og mál innflytjenda. Ólíkt þeim áróðri frá Íran og Rússlandi sem fannst á Facebook í ágúst þá er efnið, sem þessir aðgangar deildu, fjölbreyttara og samofið við bandarískan áróður. Einnig var að finna áróðursskilaboð um andstöðu við Ísrael og Sádí Arabíu.
Yfir milljón fylgjendur
Sumar þessara síðna voru með yfir milljón fylgjendur. Ein facebook-síðan sem hét „I Need Justice Now“ var með meira en 13 milljónir áhorf á eitt myndband. Einnig hafa fundist svipaðir falsaðgangar á Instagram. Samkvæmt reglum Facebook eru falskir aðgangar bannaðir og um leið og fyrirtækið verður vart við blekkjandi hegðun þá rannsaka þeir aðgangana og fjarlægja ef ástæða þykir. Yfir 20.000 þúsund manns vinna við öryggi á Facebook meðal annars við að fjarlægja slíkar síður.
Greiningardeild Facebook segir aðferðir þessara tilteknu falssíðna þróaðri heldur en aðferðirnar sem notaðar voru á hinum írönsku falsaðgöngnum sem eyddar voru í ágúst. Því er talið að aðilarnir hafi lært ýmislegt eftir að Facebook fjarlægði síðurnar þeirra í fyrra skiptið.
Kosningar yfirvofandi
Síðurnar voru fyrst stofnaðar í júní árið 2016 en þær höfðu verið mjög virkar áður en þær voru fjarlægðar og er sú virkni talin tengjast því að þingkosningar eru yfirvofandi í Bandaríkjunum sem og áframhaldandi Brexit-umræða í Englandi. Facebook tók fyrst eftir falsaðgöngum í síðustu viku og í ljósi yfirvofandi kosninga voru aðgangarnir rannsakaðir og stjórnvöld í Bandaríkjunum og Bretlandi látin vita. Samkvæmt frétt Facebook er ekki ljóst hver ber ábyrgð á aðgöngunum en ekki hafa fundist nein tengsl síðnanna við írönsk stjórnvöld ennþá en rannsóknin er í fullum gangi.
Facebook hefur áður verið gagnrýnt fyrir að fylgjast ekki betur með falsfréttum á miðlinum og hversu auðvelt sé að misnota vettvanginn til að dreifa áróðri fyrir ákveðna hópa fyrir kosningar.