Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi ekki brotið á lögmönnunum Ragnari H. Hall og Gesti Jónssyni þegar þeir voru dæmdir í réttarfarssekt upp á eina milljón króna hver fyrir að segja sig frá Al Thani-málinu svokallaða í apríl 2013. Hægt er að lesa dóm Mannréttindadómstólsins í heild sinni hér.
Í Al Thani-málinu voru þrír af æðstu stjórnendum Kaupþings: Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson ákærðir ásamt Ólafi Ólafssyni, einum stærsta eigenda bankans fyrir hrun, fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og hlutdeild í umboðssvikum.
Upphaflega átti málsmeðferð í Al Thani-málinu að fara fram í héraðsdómi í apríl 2013 en henni var frestað þegar Gestur Jónsson og Ragnar H. Hall, verjendur Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar, sögðu sig frá málinu þremur dögum áður en að aðalmeðferð átti að fara fram.
Þetta sögðust þeir hafa gert vegna þess að réttur skjólstæðinga þeirra til réttlátrar málsmeðferðar og jafnræðis hefði verið þverbrotinn. Vegna þessa þurfti að fresta aðalmeðferð málsins. Saksóknari sagði ljóst að lögmennirnir hefðu fundið glufu til að tefja málið.
Ragnar og Gestur voru dæmdir í réttarfarssekt fyrir athæfið í bæði héraði og Hæstarétti og urðu að greiða milljón krónur hvor. Þeir voru ósáttir við þá niðurstöðu og ákváðu að leita til Mannréttindadómstóls Evrópu. Hann hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið brotið á Ragnari og Gesti.
Al Thani-málinu lauk með dómi Hæstaréttar 12. febrúar 2015 þar sem allir ákærðu voru sakfelldir. Hreiðar Már var sakfelldur í öllum ákæruliðum og dæmdur til 5 og hálfs árs fangelsis, Sigurður var sakfelldur samkvæmt ákæru hvað varðar markaðsmisnotkun en fyrir hlutdeild í umboðssvikum og dæmdur til 4 ára fangelsis. Ólafur var sakfelldur vegna markaðsmisnotkunar en sýknaður í ákæruliðum varðandi umboðssvik og dæmdur til 4 og hálfs árs fangelsis og Magnús var sakfelldur í öllum ákæruliðum og dæmdur til 4 og hálfs árs fangelsis.
Málið var á meðal umfangsmestu sakamála sem rekin hafa verið á Íslandi og dómarnir þeir þyngstu sem fallið hafa um efnahagsbrot.