Úrsagnir og deilur innan raða Pírata verða ræddar á fundi flokksins í kvöld. Nokkrir hafa sagt sig úr flokknum vegna eineltis. Eineltisáætlun og áætlun um viðbrögð vegna kynferðislegrar áreitni er á dagskrá og kosið verður um þær í kvöld. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
„Það er fólk sem hefur liðið illa innan flokksins og það hefur ekki verið tekist á við það. Það er stórt vandamál sem þarf að takast á við.“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarstjórn Reykjavíkur.
Fjórir úr framkvæmdaráði Pírata hættu í ráðinu í október og meðal þeirra er fyrrverandi formaður framkvæmdaráðs Pírata Sindri Viborg en hann hefur sakað félaga sína um einelti í sinn garð.
Segir úrskurðinn ljótan og illa ígrundaðan
Rannveig Ernudóttir, varaborgarfulltrúi Pírata, gagnrýndi vinnubrögð samflokksmanna sinna harðlega á Facebook-síðu sinni fyrir helgi. Í stöðufærslu sinni segist hún hafa sent skrifstofu borgarstjórnar erindi þar sem hún óski eftir að fá að vita hverjar afleiðingar þess væru ef hún sem kjörinn fulltrúi segði sig úr Pírötum, þar sem hún hafi mikinn áhuga á að starfa fyrir borgina en ekki sem Pírati.
Rannveig lýsir í færslunni á Facebook óánægju með niðurstöðu úrskurðarnefndar Pírata að virkja ætti uppsagnarákvæði í ráðningarsamningi aðstoðarmanns framkvæmdastjóra flokksins. Úrskurðurinn var birtur á föstudaginn þar sem fram kemur að aðila í starfi aðstoðarmanns framkvæmdastjóra sé sagt upp störfum vegna þess að láðst hafi að fara eftir lögum Pírata um að auglýsa fastar stöður í boði hjá Pírötum þegar viðkomandi var ráðinn. Rannveig segir þann úrskurð ljótan og illa ígrundaðan. Hún segir hann hluti af stærri mynd sem einkennist af „ofbeldi, valdníðslu, einelti, mikilli vanhæfni og ofmati eineltistudda á eigin ágæti“.
Rannveig segir þetta ekki einsdæmi að starfsmenn flokksins séu hraktir á braut heldur virðist það fremur vera venjan. „Hreyfing sem kemur svona fram við starfsfólkið sitt er ekki fær um að leiða baráttuna fyrir bættu samfélagi,“ segir Rannveig meðal annars.
Atli Fanndal fyrrverandi pólitískur ráðgjafa Pírata segist, í stöðufærslu á Facebook-síðu sinni, skammast sín fyrir hönd þeirra sem skrifuðu úrskurðinn og að þau gerðu sér kannski ekki grein fyrir því að þarna hefðu þau formgert, samþykkt og styrkt einelti.
Ráðinn án auglýsingar
Málið á rætur að rekja til þess þegar Píratar réðu í vor Hans Benjamínsson í stöðu aðstoðarmanns framkvæmdastjóra en ráðið var í stöðuna með tímabundnum verktökusamningi sem gilti til 1. júní, þ.e. fram yfir sveitarstjórnarkosningar 26. maí síðastliðinn. Eftir kosningar ræddu framkvæmdastjóri og framkvæmdaráð Pírata um þörf og nauðsyn þess að Píratar hefðu tvo starfsmenn og hvort ráða ætti í stöðuna til frambúðar, að því er fram kemur í umræddum úrskurði. Úr varð að framkvæmdastjóra var falið að ráða í stöðu aðstoðarmanns og var Hans valinn til að gegna stöðunni á ný. Frá ráðningunni var gengið án auglýsingar í ágúst. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Úrskurðarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að ákvæði laga Pírata sem kveður á um að eingöngu sé heimilt að ráða starfsfólk að undangenginni auglýsingu um stöðuna hafi ekki verið framfylgt við umrædda ráðningu og telur rétt að framkvæmdaráð virki uppsagnarákvæði í ráðningarsamningi Hans svo fljótt sem auðið er. Úrskurðurinn birtist síðasta föstudag.
„Fólk er að tala saman. Það er kannski ekki mikið sem hægt er að segja á þessari stundu. Þetta er allt tekið mjög alvarlega,“ segir Erla Hlynsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata í samtali við Morgunblaðið. Hún segir jafnframt að aldrei megi gera lítið úr upplifunum fólks af einelti og því verði að skoða málið ítarlega.
Í samtali við Fréttablaðið segir Dóra Björt líta í eigin barm: „Ég auðvitað horfi í eigin barm, hvort ég hefði getað gert meira til að koma í veg fyrir að þessi staða hefði komið upp og vil biðja það fólk afsökunar sem ég hefði getað stutt betur. Þetta er að einhverju leyti afleiðing þess flata strúktúrs sem við erum með þar sem ábyrgðin á því hver eigi að taka á svona málum er á reiki,“ segir Dóra Björt. „Við sem flokkur virðumst reyna að setja upp ný kerfi og ferli í staðinn fyrir að tala bara saman og leysa vandann.“
Fyrr í kvöld birtist þessi úrskurður. Þetta er ljótur og illa ígrundaður úrskurður. Hann er hluti af stærri og ljótri...
Posted by Rannveig Ernudóttir on Friday, November 2, 2018