Kosning um sameiningu SFR og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar hefst á hádegi í dag. Verði sameiningin samþykkt þá verða félagsmenn sameinaðs félags 10.300 talsins, sem er nærri helmingur félagsmanna BSRB og þriðja stærsta stéttarfélag landsins. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
SFR og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar eru langstærstu félögin innan BSRB en BSRB eru heildarsamtök stéttarfélaga starfsmanna í almannaþjónustu. Fyrr á árum höfðu félögin augljósa aðgreiningu, SFR, stéttarfélag í almannaþjónustu, var félag ríkisstarfsmanna og samdi við ríkið en Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar var félag borgarstarfsmanna og samdi við borgina. Skiptingin hefur riðlast nokkuð, m.a. vegna færslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga og stofnunar opinberra hlutafélaga um rekstur opinberra stofnana. Nú gera félögin mismunandi samninga við sömu viðsemjendur. Bæði félögin eru blönduð félög, með ófaglærða og háskólamenntað fólk og allt þar á milli.
Formenn félaganna tala fyrir sameiningu
Formenn félaganna tala ákveðið fyrir sameiningu en þeir telja að sameiningin býður upp á hagkvæmni í rekstri en félögin eru nú þegar með skrifstofu á sömu hæð í BSRB húsinu. Ásamt því hafa félögin átt í margþættu samstarfi í rúm 20 ár og að sögn formanna er það ástæðan fyrir því að umræður hófust um sameiningu. Samstarfið felst meðal annars í sameiginlegri þjálfun trúnaðarmanna, námskeiðahaldi og síðast sameinuðu félögin félagsblöðin sín í eitt.
Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, segir að sameining geti verið liður í því að styrkja þau í kjarabaráttu og verja réttindi félagsmanna. Hann segir félög sem eru með í kringum 5.000 félaga vera þokkalega sterk en með sameiningu verði þau mun öflugri. „Það hefur sýnt sig að gott er að hafa fjöldann á bak við sig til að halda hlutum gangandi,“ segir Garðar Hilmarsson, formaður Starfsmannafélagsins í samtali við Morgunblaðið.
Ef af sameiningunni verður þá verða opinberir starfsmenn komnir með þriðja stærsta stéttarfélag landsins. Samkvæmt formönnunum hafa áformin verið kynnt á fjölda funda og á heimasíðu félaganna. Rafræn atkvæðagreiðsla hefst síðan á hádegi í dag og lýkur á hádegi nk. föstudag.
Skiptar skoðanir um sameininguna
Árni Stefán segir að þær kannanir sem gerðar hafa verið benda til að mikill meiri félagsmanna styðji sameininguna. Efasemdaraddir hafa þó látið í sér heyra innan raða beggja félagana en þar á meðal er varaformaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar Ingunn H. Þorláksdóttir. Ingunn segir í samtali við Morgunblaðið að henni hugnast þessi sameiningu. Hún telur að ekki sé mikill spenningur fyrir málinu í félaginu og óttast að lítil þátttaka verði í atkvæðagreiðslunni.
Ingunni finnst félagið verða of stórt og of dreift um allt land, hún telur að sameinað félag yrði of mikið bákn innan BSRB. Starfsmannafélögin á Seltjarnarnesi og Akranesi sameinuðust Starfsmannafélagi Reykjavíkur fyrir nokkrum árum. Telur Ingunn að það hefði verið betra fyrir hagsmuni félagsmanna að leita eftir sameiningu við starfsmannafélögin á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenninu.