Ísland var með mesta losun koltvísýrings frá hagkerfi á einstakling innan ESB og EFTA svæðisins árið 2016. Ísland hefur verið í þriðja til fjórða sæti frá árinu 2008 en losun hefur aukist mikið vegna aukins flugreksturs og skipaflutninga frá árinu 2012. Þetta kemur fram í nýjustu tölum AEA , losunarbókhaldi Hagstofu Íslands, þar sem mælt er hver losun koltvísýrings er frá hagkerfi Íslands.
Losun koltvísýrings frá hagkerfi í heild sinni á einstakling hefur aukist á Íslandi úr 14,6 tonnum árið 2008 í 16,9 kílótonn árið 2016. Til samanburðar er losun 1,7 tonn af koltvísýring svipuð og losunin frá meðalfjölskyldubíl sem ekið er 8000 km. Önnur lönd sem hafa verið með háa losun koltvísýrings á einstakling, Lúxemborg, Danmörk og Eistland, hafa hins vegar verið að draga úr losun á einstaklinga. Í Lúxemborg hefur losun á einstakling minnkað frá árinu 2008 úr 18,8 í 15,2 árið 2016 og sömu þróun má sjá hjá Eistlandi og Danmörku. Samkvæmt Hagstofunni hefur losun á einstakling almennt lækkað innan ESB og eru flest lönd komin niður í um 9 tonn á einstakling.
Mikil losun frá íslenskum flugfélögum
Losun koltvísýrings frá einkennandi greinar ferðaþjónustunnar á Íslandi hefur ríflega fimmfaldast frá árinu 1995 og nær þrefaldast frá árinu 2012. Greinar ferðaþjónustunnar fara fram úr losun fyrirtækja í framleiðslu málma árið árið 2016. Í einkennandi greinum ferðaþjónustu kemur losun CO2 fyrst og fremst frá flugi en ekki er gerður greinarmunur á því, í mælingum AEA, hvort að starfsemi íslensku flugfélaganna fara fram á Íslandi eða erlendis eða hvort verið sé að þjónusta ferðamenn eða fólk búsetta á Íslandi
Umsvif íslenskra flugfélaga hafa vaxið mjög ört síðustu sex ár. Samkvæmt tölum hagstofunnar hefur losunin beina fylgni við fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll. Á árunum 2015 til 2016 fjölgaði farþegum um Keflavíkurflugvöll nær 35 prósent en losun frá greininni um 36 prósent.Samkvæmt Hagstofunni má gera ráð fyrir að flug og framleiðsla málma verði áfram með ráðandi hlutfall losunar á Íslandi árin 2017 og 2018. Flugrekstur hefur vaxið áfram í samræmi við undangengin ár og vinnsla á kísilmálmi hófst. Koltvísýringslosun frá hagkerfinu á einstakling hefur því farið vaxandi frá árinu 2016.
Í löndum sem eru ofarlega á listanum yfir mesta mengun eru ákveðnir geira með afgerandi mesta losun. Í Lúxemborg er losun að stærstum hluta vegna reksturs flugfélaga, bæði farþegaflutnings og fraktflutnings. Sjóflutningur er afgerandi stærsta grein danska hagkerfisins í losun á einstakling, enda er stærsta skipafélag heims skráð þar. Eingöngu um 15 prósent af orkuframleiðslu Eistlands kemur frá endurnýjanlegum auðlindum og því er þessi geiri með afgerandi hlutfall losunar þar.
Dregið hefur úr losun einstaklinga á hinum Norðurlöndunum.
Þróun í losun frá hagkerfi Íslands á einstakling hefur verið á skjön við hin Norðurlöndin. Losun Íslendinga hefur aukist á meðan hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa náð að draga úr losun. Danir hafa náð mestum árangri í að draga úr losun, en losun á einstakling náði hámarki árið 2006. Svíþjóð hefur sýnt afgerandi lægsta losun frá sínu hagkerfi.
Losun á hvern einstakling frá íslenskum heimilum hefur verið hærri en hjá hinum Norðurlöndunum frá árinu 2008 en árið 2016 var losun koltvísýrings frá íslenskum heimilum 30 prósent hærri en árið 1995, en hefur verið á bilinu 540 til 600 kílótonn CO2 frá 2008. Danir hafa dregið mest úr losun frá heimilum eða um 0,33 tonnum á einstakling frá 2008.
Ísland er í níunda til ellefta sæti þegar losun koltvísýrings frá rekstri heimila er borin saman við ríki innan ESB. Losun frá heimilum er fyrst og fremst vegna aksturs en einnig er tekið tillit til notkunar eldunargass, hitunarolíu og flugelda. Flug, strætóferðir, sorplosun, notkun rafmagns og jarðvarma telur ekki inn í losun heimila, heldur reiknast á viðeigandi atvinnugreinar. .