Leiguverð hækkar nú meira utan höfuðborgarsvæðisins en innan þess. Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins hefur leiguverð hækkað um 12,9 prósent og um 14,5 prósent annars staðar á landsbyggðinni á milli ára. Leiguverð er þó enn hæst í 101 Reykjavík en þar er leiguverð í þinglýstum leigusamningum um 3000 krónur á fermetrann. Á höfuðborgarsvæðinu hækkaði leiguverð um 6,1 prósent á milli ára. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðarlánasjóðs.
Fermetraverð leigu í 101 Reykjavík enn hæst
Póstnúmerið 101 Reykjavík er það póstnúmer á landsvísu þar sem fermetraverð í þinglýstum leigusamningum er hæst eða hátt í 3.000 krónur að meðaltali á fyrstu níu mánuðum ársins. Póstnúmerið 107, sem nær til Vesturbæjar Reykjavíkur, er ekki langt undan en þar var fermetraverð um 4 prósent lægra en í 101 Reykjavík á sama tímabili. Í 200 Kópavogi var verðið um 10 prósent lægra en í miðborginni og í 220 Hafnarfirði var það um 21 prósent lægra. Á Akureyri, Selfossi og í Reykjanesbæ var meðalfermetraverð um eða undir 2.000 krónum eða um þriðjungi lægra en í 101 Reykjavík.
Meðalsölutími á sérbýli orðinn svipaður og á fjölbýli
Sérbýli hækkað meira en fjölbýli á síðustu 12 mánuðum. Á milli ára hafa sérbýli hækkað um 4,4 prósent en fjölbýli 3,4 prósent. Íbúðir í sérbýli eru nú svipað lengi á sölu eins og íbúðir í fjölbýli en á undanförnum árum hefur að jafnaði tekið lengri tíma að selja sérbýli en fjölbýli. Töluvert fleiri íbúðir eru til sölu í fjölbýli en sérbýli en hlutur fjölbýlis virðist hafa aukist smátt og smátt frá árinu 2013 þegar hlutur þess var um 65 prósent en það er nú um 75 prósent allra íbúða sem settar eru á sölu.
Hagnaðarhlutfall að meðaltali hærra í byggingariðnaði en öðrum greinum
Rekstrartekjur í byggingariðnaði voru um 360 milljarðar í fyrra en afkoma byggingariðnaðarins hefur batnað hratt á undanförnum árum. Það tók það byggingariðnaðinn um sex ár í kjölfar fjármálakreppunnar að ná aftur rekstrarframlegð á par við meðaltal fyrirtækja hérlendis samkvæmt skýrslu íbúðarlánasjóðs.
Á árinu 2016 var framlegð af rekstri fyrirtækja innan byggingargeirans síðan orðin meiri en í viðskiptahagkerfinu í heild og á síðasta ári jókst það bil enn frekar.
Síðastliðin tvö ár hafa fyrirtæki í byggingarstarfsemi skilað að meðaltali meiri hagnaði út frá hverjum einstaka starfsmanni sínum en aðrar atvinnugreinar almennt. Sem hlutfall af rekstrartekjum er hagnaður fyrir fjármagnsliði nú hærri í byggingariðnaði en öðrum greinum hagkerfisins en var lægri árin 2009-2015. Hagnaður fyrirtækja í byggingariðnaði fyrir fjármagnsliði var 41 milljarður króna í fyrra sem er tvöfalt meira en árið 2015.