Ríkisstjórn Bretlands hefur samþykkt drög að Brexit-samningnum sem Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, lagði fyrir ráðherra í gærkvöldi. Fundurinn stóð yfir í fimm klukkutíma en samkvæmt BBC var ákvörðunin ekki samhljóða. Laura Kuenssberg, stjórnmálaskýrandi BBC, sagðist hafa heimildir fyrir því að níu ráðherrar hefðu verið á móti.
May segir umræður ráðherranna á fundinum hafa verið heitar en að hún telji að samningsdrögin séu besta mögulega niðurstaðan sem Bretland hefði getað fengið úr samningaviðræðunum við Evrópusambandið. „Valið stóð um þennan samning, sem mun gera okkur kleift að endurheimta stjórnina og stuðla að bjartari framtíð fyrir landið okkar, eða að fara aftur á byrjunarreit, sundurleitari og óvissari, og mistakast að uppfylla ósk kjósenda,“ segir May í yfirlýsingu sinni. Hún segir helsta ágreiningsefni ráðherranna hafi verið landamæramálið á Írlandi, hin svokallaða „backstop“ áætlun sem tryggja á að ekki verði komið á hörðum landamærum á Írlandi.
Átta ráðherrar sagt af sér á þessu ári
Nú þegar hafa þrír ráðherrar sagt af sér eftir fund ríkisstjórnarinnar. Dominic Raab, Brexit-ráðherra Bretlands, hefur sagt af sér en hann segir samvisku sína ekki leyfa sér að styðja drögin og segir að óásættanlegt sé að Evrópusambandið hefði neitunarvald um það hvort Bretar gætu í raun slitið sig að fullu frá sambandinu. Shailesh Vara, þingmaður Íhaldsflokksins sem fer með málefni Norður-Írlands í bresku ríkisstjórninni og Ester McVey, ráðherra atvinnumála og eftirlauna sögðu jafnframt bæði af sér í morgun. Það gerir átta ráðherra sem sagt hafa af sér út af Brexit á þessu ári og yfir tuttugu ráðherrar á síðustu tveimur árum.
Fleira áhrifafólk í breskum stjórnmálum hefur sagt af sér í kjölfarið. Suella Braverman, undirráðherra í Brexit-ráðuneytinu hefur sagt af sér. Hún fylgir þar yfirmanni sínum Dominic Raab úr ráðuneytinu sem hafði umsjón með samningaviðræðunum við Evrópusambandið. Anne-Marie Trevelyan, sem var tengiliður ráðherra menntamála við þingheim, sagði einnig af sér.
Today, I have resigned as Brexit Secretary. I cannot in good conscience support the terms proposed for our deal with the EU. Here is my letter to the PM explaining my reasons, and my enduring respect for her. pic.twitter.com/tf5CUZnnUz
— Dominic Raab (@DominicRaab) November 15, 2018
May mætir andstöðu
Theresa May flytur ávarp á breska þinginu í dag en stefnt er að því að samningurinn verði lagður fyrir þingið fyrir jól. Óvíst er hins vegar hvort meirihluti sé fyrir samkomulaginu í neðri deild breska þingsins, jafnvel þó þingflokksformaður Íhaldsflokksins telji sig hafa tryggt samningnum brautargengi.
Írski flokkurinn hefur þegar lýst yfir efasemdum um samkomulagið og varar við því að breska sambandsríkið gæti leysts upp verði samkomulagsdrögin samþykkt af breska þinginu. Þessi andstaða gerir Theresu May forsætisráðherra erfitt fyrir enda hefur flokkur hennar ekki meirihluta á breska þinginu og þarf að reiða sig á stuðning flokks sambandssinnaðra mótmælenda frá Írlandi.
Samningsdrögin voru gerð opinber í gærkvöldi en þau hafa strax mætt mikilli andstöðu meðal fylkinga útgöngusinna og þeirra sem vilja halda í aðild ESB. Meðal þeirra er Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skota, en hún gagnrýnir samninginn harðlega en ekkert er minnst á Skotland í samningnum. Hún segir í samtali við BBC það hrikalegar fréttir fyrir Bretland ef samningurinn verði samþykktur. Drögin fela í sér að Norður-Írland fái að vera áfram innan innri markaða Evrópusambandsins og segir hún að slíkt myndi vera ósanngjarnt gagnvart Skotlandi því ríkisstjórn Sturgeon vill einnig vera innan innri markaða ESB. Hún nefnir einnig að fyrst May geti varla sameinað ríkisstjórn sína þá sé ljóst að erfitt verði fyrir hana að sannfæra þingið.
Not long off call with PM. She tried to tell me Scotland’s ‘distinctive’ interests had been protected. I pointed out that there isn’t a single mention of Scotland in the agreement, that it disregards our interests, and puts Scotland at a serious competitive disadvantage.
— Nicola Sturgeon (@NicolaSturgeon) November 14, 2018
Breskir fjölmiðlar hafa fjallað um að hugsanlega muni hópur útgöngusinna óska eftir atkvæðagreiðslu um vantraust á ríkisstjórn Theresu May í breska þinginu í dag í von um að gera út um vonir ríkisstjórnarinnar að samningurinn verði samþykktur óbreyttur. Jacob Rees-Mogg, einn helsti stuðningsmaður Brexit innan Íhaldsflokksins, hvatti flokksfélaga sína til að hafna samningsdrögunum á þinginu og Nigel Farage, andlit Brexit-baráttunnar, skrifaði á Twitter- síðu sína að þetta væri versti samningur sögunnar og hvatti þá ráðherra sem voru fylgjandi útgöngu Breta að segja af sér.
Enn langt í land
Ef þingið samþykkir ekki samninginn þá er óvíst hvað muni gerast næst. Samkvæmt BBC er möguleiki á því að May reyni að endursemja um nýjan samning við Evrópusambandið. Líklegt þykir að tími hennar sem forsætisráðherra sé á enda ef ekki náist sátt við breska þingið, hvort sem það sé með nýrri kosningu eða að nýr forsætisráðherra verði valinn. Haft er eftir heimildarmönnum BBC að möguleiki sé á því að hún muni kalla eftir nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu en forsætisráðherrann hefur margoft sagt að sá möguleiki sé ekki fyrir hendi.
Fulltrúar hinna 27 aðildarríkja Evrópusambandsins þurfa sömuleiðis að samþykkja drögin til að samningurinn öðlist gildi. Leiðtogafundur verður haldin í lok mánaðarins til að fínpússa samninginn áður en hann verður lagður fyrir þingið. Á þeim fundi á einnig að ræða hvernig samskiptum Bretlands og ESB verði háttað eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, sem áætluð er 29. mars á næsta ári en gert er ráð fyrir 21 mánaða aðlögunartímabili eftir það. Á aðlögunartímabilinu mun núverandi staða Bretlands innan ESB verða fryst og Bretland þannig halda aðild að tollabandalaginu og öllum þeim réttindum sem fylgja því samkvæmt Michel Barnier, aðalsamningamanni Evrópusambandsins.