Uppsögn Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, fyrrverandi forstöðumanns Orku Náttúrunnar, var réttmæt að mati innri endurskoðunar. Frá þessu er greint á vef Fréttablaðsins. Í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur kemur fram að Áslaug Thelma hafi fengið skýringar á uppsögn sinni en frekari skýringum sem boðnar voru fram á fundi hafi verið hafnað. Ábending sé í skýrslu innri endurskoðun um að hún hefði átt að fá skriflegar skýringar þegar við uppsögn.
Stjórn OR óskaði eftir því við innri endurskoðun Reykjavíkurborgar í september að gerð yrði úttekt á vinnustaðarmenningu og tilteknum starfsmannamálum innan fyrirtækisins. Málið má rekja til þess að Áslaug Thelma Einarsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður einstaklingsmarkaðar hjá Orku náttúrunnar, skrifaði færslu á Facebook þar sem hún sagðist hafa verið rekin fyrir að kvarta undan hegðun Bjarna Más Júlíiussonar, þáverandi framkvæmdastjór ON. Bjarni Már var rekinn vegna óviðeigandi framkomu en ástæða uppsagnarinnar voru tölvupóstar sem Bjarni sendi kvenkyns undirmönnum sínum.
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, óskaði eftir því að stíga tímabundið til hliðar sem forstjóri OR á meðan mál Orkuveitunnar væru til skoðunnar og úttekt gerð á vinnustaðarmenningu fyrirtækisins. Helga Jónsdóttir tók þá tímabundið við starfi forstjóra.
Vinnustaðamenning OR betri en gengur og gerist
Samkvæmt niðurstöðum úttektarinnar er vinnustaðamenning hjá Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækjum betri en gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði. Þá kemur fram að uppsagnir þeirra Áslaugar Thelmu Einarsdóttur og Bjarna Más Júlíussonar hjá Orku náttúrunnar (ON) séu taldar réttmætar. Ábendingar um framkvæmd uppsagnanna eru í úttektinni og hvatt er til að skerpt verði á verkferlum.
„Það er mikilvægt að nú liggur fyrir óháð og ítarleg skoðun á þeim atburðum sem urðu að brennidepli opinberrar umræðu nú í haust og einnig ábendingar um þá lærdóma sem við þurfum að draga af þeim,“ segir Brynhildur Davíðsdóttir, formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur. Í heildina er hún ánægð með niðurstöðu könnunar á vinnustaðarmenningu hjá OR og dótturfyrirtækjunum.
„Í ljósi þess hvernig umræðan þróaðist þá var mikilvægt að skoða hvort brotið hafði verið á fólki eða hvort að ásakanir um óheilbrigða vinnustaðamenningu ættu við rök að styðjast. Niðurstöðurnar staðfesta að svo er ekki. Við tökum ábendingarnar í skýrslunni alvarlega og munum vinna skipulega úr þeim. Áreitni og einelti eiga ekki að líðast,“ segir hún.
Í úttektarteyminu voru Hallur Símonarson innri endurskoðandi Orkuveitu Reykjavíkur, Jenný Stefanía Jensdóttir verkefnastjóri í rannsóknarendurskoðun IER, Kristín Vilhjálmsdóttir skrifstofustjóri hjá IER, Svala Guðmundsdóttir dósent í mannauðsstjórnun við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, Inga Björg Hjaltadóttir lögmaður hjá Attentus, Sigríður Þorgeirsdóttir lögfræðingur hjá Attentus og Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands undir stjórn Guðbjargar Andreu Jónsdóttur forstöðumanns sem sá um könnun meðal starfsfólks og úrvinnslu.
Í tilkynningu frá OR kemur fram að niðurstöður úttektarinnar séu í takti við þann mælanlega árangur sem náðst hefur í jafnréttismálum innan Orkuveitu Reykjavíkur. Tekist hafi að útrýma kynbundnum launamun innan OR og að fyrirtækið njóti jafnlaunavottunar Jafnréttisstofu.