Í nýju frumvarpi til laga um viðurkenningu á faglegri menntun hér á landinu er lagt til að tekið verði upp evrópskt fagskírteini til að einfalda og gera ferlið við að fá viðurkenningu á faglegri menntun og starfsreynslu, óháð því hvar viðkomandi lærði innan EES-svæðisins, fljótlegra. Í vikunni birti mennta- og menningarmálaráðuneytið drög að frumvarpinu til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.
Frumvarpið snýr að innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfni á EES-svæðinu. Tilskipunin var tekin inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í maí á síðasta ári og verður innleidd hér á landi með breytingu á lögum ef frumvarpið er samþykkt. Samkvæmt frumvarpinu er viðurkenning faglegrar menntunar og hæfis ein af grunnstoðum EES-samstarfsins og hefur verið það frá gildistöku EES-samningsins árið 1994.
Samkvæmt drögunum felst mikilvægi tilskipunarinnar í þeim réttindum sem hún tryggir þeim er aflað hafa sér faglegrar menntunar til starfa hvar sem er á Evrópska efnahagssvæðinu og réttinum til viðurkenningar á menntun og hæfi óháð því hvar nám var stundað. Þessi breyting á við um lögvernduð störf, s.s. lækna, verkfræðinga, talmeinafræðinga, kennara og pípulagningamanna.
Evrópska fagskírteinið leið til að gera framkvæmdina einfaldari
Ofangreind tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins felur í sér heimild til handa fagstéttum til að njóta viðurkenningar á starfsréttindum sínum innan EES-svæðisins og þar með til að stunda vinnu í krafti menntunar sinnar og starfsreynslu sem fjöldi fagfólks hefur ekki haft möguleika á hingað til hér á landi. Í drögum að frumvarpinu kemur fram að með þessari tilskipun verði ekki gerðar grundvallarbreytingar á tilhögun viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi á Evrópska efnahagssvæðinu heldur er frumvarpið skref til að tryggja að framkvæmdin verði enn einfaldari og skjótvirkari m.a. með innleiðingu evrópsks fagskírteinis fyrir einstaka starfsgreinar þar sem afgreiðslufrestur eru styttir frá því sem nú er.
Evrópska fagskírteininu er ætlað að styrkja innri markað Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins, ýta undir frjálsa för fagfólks og tryggja skilvirkari og gagnsærri viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi samkvæmt þingsályktunartillögu frumvarpsins. Með evrópska fagskírteininu geta umsækjendur sótt um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi með rafrænum hætti fyrir þær starfsgreinar sem falla undir evrópska fagskírteinið. Skírteinið er því hugsað sem rafræn sönnun þess að einstaklingur hefur náð faglegum prófum og landið sem einstaklingurinn vill vinna í hafi samþykkt faglegu menntun hans og uppfyllir því skilyrði til að veita þjónustu tímabundið eða til framtíðar í því landi.
Hingað til hafa Íslendingar getað nælt sér í skírteinið til að fá faglega menntun og hæfni samþykkta á hraðan og auðveldan hátt í öðru ESB landi. Í dag eru það aðallega fagmenn í heilbrigðisstéttum sem hafa getað notað skírteinið en fagmenn í öðrum greinum þurfa að reiða sig á staðlaða ferla fyrir mat á lögvernduðum starfsgreinum í öðrum löndum til að fá menntun og hæfni viðurkennda en á síðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins kemur fram að skírteinið gæti í framtíðinni verið útvíkkað til að ná yfir aðrar stéttir.
Erfitt að fá menntun metna hér á landi
Í lok september síðastliðin voru erlendir ríkisborgarar 43.430 en árið 2011 voru þeir 20.930 samkvæmt nýjustu mannfjöldatölum frá hagstofu Íslands. Fjöldi erlendra ríkisborgara hefur því aukist um 22.500 á sjö árum eða um tæplega 108 prósent hér á landi. Erlendir ríkisborgara sem búa hérlendis hafa aldrei verið fleiri og lítið lát verður á þessum miklu samfélagsbreytingum ef marka má mannfjöldaspá Hagstofu Íslands.
Á síðustu mánuðum hefur mikil umræða skapast um stöðu innflytjenda hér á landi og fjallað hefur verið um hvernig atvinnurekendur á Íslandi hafi í röðum brotið á réttindnum erlends starfsfólks. Ásamt því hefur á síðustu árum einnig verið fjallað um í fjölmiðlum hversu erfitt það getur reynst innflytjendum sem setjast að hér á landi að fá menntun sína metna eða fá starf sem hæfir menntun sinni. Í umfjöllun Fréttablaðsins um málið fyrir nokkrum árum voru birt viðtöl við fjölda innflytjenda sem búa hér á landi og eru með háskólamenntun en fá aðeins að sinna láglaunastörfum hérlendis vegna þess að þeir fá menntun sína ekki metna.
Samtök kvenna af erlendum uppruna segja til að mynda marga lenda í vandræðum með að fá nám sitt metið hér í landi. Í samtali við Fréttablaðið bentu stjórnarkonur samtakanna þær Angelique Kelly og Anna Katarzyna Wozniczka á að nauðsynlegt sé að líta á nám sem auðlind sem eigi að nýtast hvort sem það er erlend menntun eða íslensk. „Ísland er að missa af tækifæri til þess að nota menntun og þekkingu þessa fólks,“ sagði Anna og benti jafnframt á að það myndi hjálpa mörgum ef ferlið til þess að meta nám yrði gert aðgengilegra og auðveldara.