Fyrir rúmu ári síðan eða þann 24. nóvember 2017 riðu stjórnmálakonur á vaðið og birtu áskorun – sem undirrituð var af á fimmta hundrað stjórnmálakonum – þar sem þær kröfðust þess að karlar tækju ábyrgð og að stjórnmálaflokkarnir tækju af festu á málinu. Þess var krafist að flokkarnir og starfsstaðir stjórnmálafólks myndu setja sér viðbragðsreglur og lofa konum því að þær þurfi ekki að þegja og að þær myndu fá stuðning.
Rúmlega 800 konur – sem voru og höfðu verið virkar í stjórnmálum á Íslandi – ræddu saman í lokuðum Facebook-hópi og deildu reynslusögum um kynjað starfsumhverfi stjórnmálanna.
136 frásagnir voru birtar opinberlega en konurnar komu úr öllum flokkum, voru á ýmsum aldri, höfðu starfað á flestum sviðum stjórnmálanna, á ýmsum tímum og um allt land. Sagði í tilkynningu frá forsvarsmönnum hópsins á sínum tíma að einstakur samhljómur og samstaða hefði einkennt umræður í hópnum. Fjölbreyttar sögur kvennanna hefði dregið upp sláandi mynd af þeim karllæga heimi sem stjórnmálin eru – sögur um kynbundið ofbeldi, áreitni, valdbeitingu og þöggun.
Þingmenn töluðu niðrandi um konur
Upptaka náðist af því þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir ræddu málin á Klaustri Bar hinn 20. nóvember, en þingmennirnir Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason voru einnig í hópnum. Í umfjöllun Stundarinnar og DV kemur fram að þingmennirnir hafi talað með niðrandi hætti um kvenkyns stjórnmálamenn í samtölum sín á milli.
Sögðu þeir meðal annars að stjórnmálakona hlyti að „hrynja niður“ á prófkjörslista ef hún væri ekki jafn „hot“ og áður.
Í umfjöllun Stundarinnar segir meðal annars orðrétt:
„Á einum tímapunkti töluðu þingmennirnir um hvernig næsta prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í tilteknu kjördæmi geti farið.
Gunnar Bragi: „Ég held reyndar að [...] geti verið helvíti öflug. Hún er helvíti sæt stelpa.“
Sigmunur Davíð: „Þetta er svona móment, ung kona, ungt fólk í Sjálfstæðisflokknum, lyftum henni.“
Bergþór: „Nú ætla ég að segja eitt sem er náttúrulega mjög dónalegt, en það fellur hratt á hana. Hún er miklu minna hot í ár en hún var bara fyrir tveimur árum síðan. Það er ótrúlegur munur.“
Sigmundur Davíð: „Og á þeim forsendum segi ég að hún hrynji niður listann.“
Bergþór: „Eðlilega.“
Á þessu augnabliki skaut Anna Kolbrún inn: „Viljiði velta fyrir ykkur, ef þetta væri karl?“ og við tóku háreysti og hlátrasköll karlanna.
Bergþór Ólason sagði um Ingu Sæland, formann og stofnanda Flokks fólksins, verða „húrrandi klikkaða kuntu“.
Hæddust að Metoo-umræðunni
Þingmennirnir hæddust enn fremur að Metoo-umræðunni í hljóðupptökunni. Gunnar Bragi og Bergþór sögðust hafa sínar eigin Metoo-sögur af Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, og sögðu hana hafa áreitt sig hvorn í sínu tilvikinu.
Albertína sagði í samtali við Stundina að Gunnar Bragi hefði hringt í sig og beðið hana afsökunar og sagt að ekkert af því sem fram hefði komið í samtalinu hefði verið satt. Hún segist jafnframt vera kjafstopp yfir orðum Gunnars Braga og Bergþórs um meintar sögur þeirra af henni. Hún segir það mjög óþægilegt að láta ljúga svona sögum upp á sig.
„Hann gaf mér leyfi til að segja ykkur að hann væri tilbúinn til að bera þetta til baka og bað mig afsökunar,“ segir Albertína í samtali við Stundina. „Það er hrikalegt að vera ásakaður um eitthvað sem gerðist ekki.“
Aðspurð um viðburðina sem mennirnir tala um segist hún ekki kannast við atvikin. „Ég er eiginlega bara kjaftstopp. Mér er rosalega illt í hjartanu yfir öllum þessum samtölum sem þeir áttu þarna. Ég er hreinlega orðlaus. Þetta er bara ekki rétt.“
Dregur fram hvernig karlar í valdastöðu tala um konur
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður flokksins, telur að niðrandi ummæli þingmanna gagnvart stjórnmálakonum, sem komu fram í upptökum á samtölum þingmanna á Klaustur Bar, dragi fram hvernig karlar í valdastöðu tala um konur.
„Það sem mér finnst vera alvarlegt í þessu er að þarna eru menn í valdastöðum að tala mjög niðrandi um konur, uppnefna þær og nota uppnefni á kynfærum til þess að taka konur niður í umræðunni, og þetta er bara eitthvað sem á ekki að eiga sér stað og alls ekki á milli kjörinna fulltrúa,“ segir Oddný í viðtali við Stundina í dag.
Sendir skilaboð til kvenna í heild
Oddný segist persónulega vera slétt sama um ummæli Gunnari Braga um sig sjálfa en segir að þetta séu skilaboð til kvenna í heild og staðfesting á því að slíkt viðhorf gagnvart konum í stjórnmálum sé enn í fullu gildi og segir konur hafa í gegnum tíðina reynt að benda á þessa menningu. Oddný minnist einnig á að meðal þessara þingmanna séu ráðherrar sem hafa talað gegn þessari menningu en segir að þeim hafi greinilega ekki tekist að vinna í sjálfum sér hvað þetta varðar. „Og að þetta komi frá þingmönnum og fyrrverandi ráðherrum, eftir að við erum búin að eiga allar þessar um ræður um #metoo og heforshe,“ segir hún.
Hún segir þetta muni ekki auka virðingu almennings á Alþingi og geti jafnframt haft vond áhrif á samvinnu meðal þingmanna. Hún telur að til að breyta þessu leiðindamáli í eitthvað gott þurfi að ræða þessa menningu á Alþingi og uppræta hana fyrir fullt og allt.
Sér ekki fyrir sér að þessir menn sitji áfram á Alþingi Íslendinga
Í upptökunum heyrast þingmennirnir tala illa um Ingu Sæland, þingmann Flokks fólksins, Oddnýju Harðardóttur og fleiri stjórnmálakonur. Þá má einnig heyra þingmennina gera grín að Freyju Haraldsdóttur.
Oddný segir að með þessum ummælum sínum gagnvart Freyju og Albertínu hafi þingmennirnir farið yfir „línuna stóru“. Hún sjái ekki að þeim sé lengur stætt á Alþingi Íslendinga, „Hvernig þeir ræða um Albertínu og Freyju Haralds er svo svakalegt að ég get ekki séð fyrir mér að þessir menn sitji áfram á Alþingi Íslendinga,“ segir Oddný í samtali við Stundina.
Þær Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sem allar voru til umræðu á upptökunum sendu í morgun frá sér yfirlýsingu þar sem þær fordæma ummælin sem látin voru falla á Klaustri bar og segjast líta þau alvarlegum augum.