Hættan sem stafar að mannkyninu vegna loftslagsbreytinga hefur aldrei verið meiri, fullyrðir Patricia Espinosa, framkvæmdastjóri Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, á árlegri ráðstefnu Sameinuðu þjónanna um loftlagsmál. Ráðstefnan, COP24, var sett í 24. sinn í Katóvítsje í Póllandi í dag. „Þetta ár verður líklega meðal fjögurra heitustu ára síðan mælingar hófust,“ sagði Espinosa. „Áhrif loftslagsbreytinga hafa aldrei verið verri. Þessi veruleiki sýnir okkur að við þurfum að gera miklu meira.“
Leikreglur Parísarsamkomulagsins
Á þessari 24. ráðstefnu er markmiðið að öll 183 ríki heims sem eru aðilar að Parísasamkomulaginu samþykki leikreglur sem séu fýsilegar fyrir öll ríkin. Það er þó óvíst hvort að öll ríkin taki þátt en til dæmis taka Bandaríkin ekki lengur þátt í Parísarsamkomulaginu, eftir að Donald Trump, bandaríkjaforseti, dró stuðning Bandaríkjanna til baka um mitt ár 2017.
Þrjú ár eru síðan Parísasamkomulagið var undirritað á ráðstefnunni, sem þá var haldin í Frakklandi. Þar settu öll aðildarríki að rammasamningnum sér markmið í loftslagsmálum til ársins 2030. Ísland var þeirra á meðal en markmið Íslands er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um minnst 40 prósent árið 2030 miðað við árið 1990.
Heildarlosun íslenska hagkerfisins hefur tvöfaldast á síðustu 20 árum
Á Íslandi hefur losun gróðurhúsalofttegunda aukist, þvert á markmið Parísarsáttmálans. Ísland var með mesta losun koltvísýrings frá hagkerfi á einstakling innan ESB og EFTA svæðisins árið 2016. Árið 1995 var heildarlosun koltvísýrings íslenska hagkerfisins 2.817 kílótonn en árið 2016 mæltist heildarlosunin 5.698 kílótonn. Losun Íslands hefur því tvöfaldast en losun Íslands ársins 2016 er sú mesta frá árinu 1995.
Mesta losunin hagkerfisins Íslands kemur frá einkennandi greinum ferðaþjónustunnar en losunin frá ferðaþjónustunni hefur ríflega fimmfaldast frá árinu 1995 og nær þrefaldast frá árinu 2012. Losun á hvern íslenskan einstakling var 16,9 tonn árið 2016 en losunin hefur aukist síðustu ár. Þetta kemur fram í nýjustu tölum Hagstofu Íslands.
Ríki þurfa auka slagkraft aðgerða sinna fimmfalt
Í byrjun október kom út ný skýrsla loftlagssérfræðinga á vegum Sameinuðu þjóðanna þar sem skýrt var frá óhugnanlegri stöðu er varðar hlýnun jarðar. Þar kemur fram að ríki heims hafa aldrei átt jafn langt í land með að uppfylla markmið sín í loftslagsmálum. Niðurstöður skýrslunnar sýna að hitastig á jörðunni muni hækka um 1,5 gráðu fyrir 2030 ef ekki er brugðist hratt við. Sú hækkun myndi hafa í för með sér hörmulegar afleiðingar, eyðingu kóralrifa, mikla þurrka, flóð og matarskort fyrir hundruð milljónir manna.Í skýrslunni er kallað eftir að ríki heims grípi til stórtækra aðgerða en aðeins eru tólf ár til stefnu ef koma á í veg fyrir óafturkræf áhrif á lífríki jarðarinnar. Í skýrslunni segir að ríki heims þurfi að þrefalda slagkraft aðgerða sinna til þess að hægt verði að halda hitastigi á jörðinni innan við tvær gráður, miðað við stöðuna nú. Til þess að hitastigið fari ekki yfir 1,5 gráður þurfa ríkin að auka aðgerðir sínar fimmfalt.
Nefnd eru fjögur meginsvið sem þarf að gjörbreyta, orkunotkun, landnotkun, borgarskipulag og iðnaður. Talið er að það þurfi byltingarkenndar breytingar á öllum kerfum. Breyting á því hvernig lönd eru nýtt, hvernig fólk borðar, hvernig menn ferðast og svo framvegis. Í skýrslunni sem mætti segja vera einskonar lokaútkall segir að mögulegt er að bregðast við og ná verulegum árangri fyrir 2030. En ljóst er að til þess þarf vilja almennings til breytinga sem og pólitískan vilja stjórnvalda.