Bretar geta hætt við yfirgefa Evrópusambandið án þess að fá samþykki annarra aðildarríkja Evrópusambandsins samkvæmt úrskurði Evrópudómstólsins sem birt var í morgun. Frá þessu er greint á vef Guardian.
Í úrskurðinum kemur fram að hvert aðildarríki getur afturkallað 50. grein Lissabonsáttmálans án samþykkis frá öðrum aðildarríkjum. Dómstólinn hafnaði þeim rökum, sem sett höfðu verið fram af bresku ríkisstjórninni og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, að til þess að afturkalla útgöngu þá þyrftu öll aðildarríkin að samþykkja það fyrst. Í sáttmálanum snýr 50.greinin að því tveggja ára ferli sem hefst þegar aðildarríkin ákveða að yfirgefa sambandið.
#ECJ: UK is free to unilaterally revoke the notification of its intention to withdraw from the EU – Case C-621/18 Wightman #Brexit pic.twitter.com/KUOI2eQ48C
— EU Court of Justice (@EUCourtPress) December 10, 2018
Úrskurðurinn birtur fyrir kosningar í þinginu á morgun
Evrópudómstólinn birti niðurstöðu sína í morgun í tæka tíð fyrir atkvæðagreiðslu breska þingsins á morgun um Brexit-samning Theresu May, forsætisráðherra Bretlands. Ólíklegt þykir að samningurinn verði samþykktur í þinginu. Þessi úrskurður Evrópudómstólsins gæti þýtt að þrýst yrði á aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit.
Samkvæmt dómstólnum verður þó ákvörðun um afturköllun að fylgja þeim lýðræðislegum ferlum sem eru við lýði í hverju landi fyrir sig. Í tilviki Bretlands þýðir það að ákvörðunin um að hætta við að yfirgefa Evrópusambandið yrði að vera samþykkt í breska þinginu. Breska þingið þyrfti síðan skriflega að tilkynna Evrópusambandinu að hætt hefði verið við ákvörðunina að yfirgefa sambandið.