Þingmenn breska Íhaldsflokksins greiða atkvæði í kvöld um vantrauststillögu á Theresu May, forsætisráðherra og leiðtoga flokksins. Fimmtán prósent þingmanna, fjörutíu og átta talsins, fóru fram á atkvæðagreiðsluna. Frá þessu er greint á vef BBC.
Theresa May hefur verið gagnrýnd fyrir framgöngu sína í Brexit málinu, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Greiða átti atkvæði um útgöngusamning May í þinginu í gær en May frestaði atkvæðagreiðslunni þegar ljóst var að hann yrði kolfelldur.
Samkvæmt reglum Íhaldsflokksins geta 15 prósent þingmanna flokksins krafist formannskjörs ef þeir skrifa formanni nefndar almennra Íhaldsþingmanna bréf um að þeir lýsi vantrausti á leiðtogana. Í það minnsta 48 bréf hafi borist samkvæmt BBC. Margir af hennar eigin þingmönnum eru afar ósáttir við Brexit-samning hennar og fjöldi ráðherra og þingmanna hafa sagt af sér sem mótmæli við innihald samningsins.
Atkvæðagreiðslan á að fara fram á milli klukkan 18 og 20 í dag samkvæmt BBC. Þingmenn Íhaldsflokksins munu þá greiða atkvæði um hvort þeir beri traust til forsætisráðherrans. Til að halda velli þarf May stuðning að minnsta kosti 158 þingmanna Íhaldsflokksins.