Sigrún Helga Lund, prófessor í líftölfræði við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, hefur sagt upp starfi sínu vegna dræmra viðbragða stjórnenda skólans við kvörtunum hennar vegna erfiðra samskipta og kynferðislegs háttalags af völdum yfirmanns hennar í starfsmannaviðtali.
Frá þessu greinir Sigrún í stöðuuppfærslu á Facebook.
Hún segir að sumarið 2016 hafi hún lýst áhyggjum yfir erfiðum samskiptum og kynferðislegu háttalagi af völdum yfirmanns hennar í starfsmannaviðtali. Engin viðbrögð hafi fylgt þeirri kvörtun, ástandið hafi versnað ört og þegar það hafi loks verið orðið óbærilegt hafi hún svarað fyrir sig og löðrungaði yfirmanninn. Þá fyrst hafi Háskólinn brugðist við en á allt annan máta en hana hafi órað fyrir.
„Þrátt fyrir að ég sýndi margvísleg sönnunargögn um alvarlegt andlegt ofbeldi og einelti var engin tilraun gerð til að rannsaka málið. Ég var rekin af vinnustaðnum og skipað að fara í veikindaleyfi. Þegar ég neitaði að hlýða var mér hótað áminningu sem HÍ neyddist þó til að láta niður falla enda málið allt á sandi byggt,“ segir Sigrún.
Sigrún bendir á að á sama tíma hafi metoo-umræðan risið sem hæst, þar sem HÍ hafi barið sér hvað mest á brjóst.
Yfirmaðurinn braut þrjár greinar siðareglna HÍ
„Kjaftasögur fljúga hratt á litla Íslandi og það er ekki auðvelt að vernda mannorð sitt gegn svo valdamiklum aðilum,“ segir Sigrún. Að lokum segist hún þó hafa náð styrk til að kæra málið til siðanefndar háskólans sem kvað upp dóm í júlí síðastliðnum. Þar hafi verið staðfest að yfirmaður hennar hafði brotið þrjár greinar siðareglna, þar með talda jafnræðisreglu 1.3.2:
Starfsfólk og nemendur Háskólans gæta þess að mismuna ekki hver öðrum, til dæmis vegna kyns, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða eða skoðana. Þeir leggja ekki hver annan í einelti og eru á varðbergi gagnvart einkennum þess.
Sigrún segir að það hafi ekki verið fyrr en að lögfræðingur hennar hafi stafað niðurstöðuna ofan í hana að hún áttaði sig á að hún hafði unnið málið. Hún hefði aldrei trúað því hvað gaslýsingin væri sterk.
Heyrði ekki meira frá skólanum
Málið var komið í hendur rektors, að hennar sögn, og í fyrsta sinn bærðist með henni von um réttlæti. Hún segist hafa fengið fregnir af því að siðanefnd hefði fundað með rektor og beið hún spennt eftir að heyra nánar frá honum. Fjórir mánuðir hafi liðið og á morgunfundi um jafnréttismál í hátíðarsal HÍ hafi hann sagt við hana að í Háskóla Íslands hefðu þau lagt áherslu á að hlusta á sögur kvenna, draga af þeim lærdóm og bregðast fljótt og fumlaust við.
Sigrún segir að aldrei hafi neitt heyrst eftir það.
„Nú er nær hálft ár liðið síðan dómur féll, ekki stakt orð borist frá rektor og allt ástand óbreytt - ef ekki verra. Nú er svo komið að ég get ekki hugsað mér að hefja enn annað starfsár á sama vinnustað.
Ég segi því hér með upp starfi mínu sem prófessor í líftölfræði við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands,“ segir hún í stöðuuppfærslunni.
Hafi fólk einlægan áhuga á að vita hvers vegna konur flýja HÍ er skýringin ekki svo flókin. Sumarið 2016 lýsti ég...
Posted by Sigrún Helga Lund on Wednesday, December 19, 2018