Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata ætlar að leggja fram skýrslubeiðni til Ríkisendurskoðanda um stjórnsýsluúttekt á Íslandspósti þegar þing kemur saman þann 21. janúar næstkomandi. Stjórnsýsluúttekt felur í sér mat á frammistöðu stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins. Við mat á frammistöðu er meðal annars litið til meðferðar og nýtingar á ríkisféi og hvort hagkvæmni sé gætt í rekstri. Jón Þór tilkynnti þetta í dag og óskaði einnig eftir því að aðrir þingmenn yrðu með á skýrslubeiðninni.
Ríkisendurskoðun telur það óheppilegt að ekki liggi fyrir hvernig á að taka á rekstrarvanda Íslandspósts
Fyrir jól samþykkti Alþingi 500 milljóna króna lán til Íslandspósts vegna bágrar fjárhagsstöðu þrátt fyrir að ekki liggi fyrir greining á því hvað valdi þeim mikla rekstrarvanda fyrirtækisins. Í umsögn Ríkisendurskoðunar um fjáraukalögin sem samþykkt voru 14. desember segir að Ríkisendurskoðun telji að það sé óheppilegt að ekki liggi nákvæmlega fyrir hvernig fyrirhugað sé að taka á rekstrarvanda Íslandspósts þannig að tilskilinn árangur náist „áður en tekin er ákvörðun um framlög úr ríkissjóði til félagsins.“
Ríkisendurskoðun virðist vera á þeirri skoðun að ekki liggi fyrir hvort að fjárhagsvandinn sé vegna einkaréttarhluta starfseminnar (þ.e. dreifingu áritaðra bréfa undir 50 grömmum), vegna alþjónustukvaða sem lagðar eru á fyrirtækið eða vegna samkeppnisstarfsemi sem það stundar. „Þeir möguleikar sem fyrir hendi eru á að takast á við vandann hljóta að ráðast að miklu leyti af niðurstöðu slíkrar greiningar,“ segir í umsögninni.
Til viðbótar við það fé sem ríkið ætlar að lána Íslandspósti í fjáraukalögum er enn frekari lánveiting fyrirhuguð á árinu 2019. Í fjárlögum þess árs er heimild til að endurlána allt að 1,5 milljörðum króna til Íslandspósts til að auka eigið fé fyrirtækisins vegna fyrirliggjandi lausafjárvanda þess. Þar segir að skilyrði lánveitingarinnar sé að lánið verði veitt á markaðsforsendum með fullnægjandi tryggingum. Ekkert liggur þó fyrir um hvernig Íslandspóstur ætlar að greiða umrædd lán til baka.
Íslandspóstur afskráði ePóst án samþykkis Samkeppniseftirlitsins
Íslandspóstur hefur ekki staðið undir sér undanfarin ár meðal annars vegna mikils samdráttar í bréfasendingum og niðurgreiðslu erlendra póstsendinga. Dreifingardögum póstsins hefur verið fækkað og póstburðargjald hefur þrefaldast á tíu árum. Eftirlitsaðilar hafa hins vegar bent á að slæma rekstrarstöðu Íslandspósts sé ekki aðallega að rekja til aukins kostnaðar við alþjónustu. Í athugasemdum Póst- og fjarskipstastofnunnar við skýrslu um rekstrarskilyrði Íslandspósts, frá árinu 2014, er meðal annars bent á að hundruð milljóna hafi tapast vegna lánveitinga til dótturfélaga Íslandspósts í samkeppnisrekstri. Íslandspóstur, m.a. vegna fjárfestingu í prentsmiðju Samskipta og láns til ePósts dótturfélags Íslandspósts.
Greint var frá því í dag að Íslandspóstur hlaut ekki samþykki Samkeppniseftirlitsins áður en dótturfyrirtæki þess, ePóstur, var sameinað móðurfélaginu. Í sátt sem fyrirtækið gerði við Samkeppniseftirlitið í febrúar 2017 segir að ekki megi sameina dótturfélög móðurfélaginu nema samþykki eftirlitsins liggi fyrir. Fyrirtækið ePóstur var stofnað árið 2012 og í heild hefur Íslandspóstur lánaði ePóst, dótturfyrirtæki sínu, til rúmar 300 milljónum króna en lánið hefur nær enga vexti borið. Í fyrrnefndri sátt við Samkeppniseftirlitið segir að reikna skuli vexti á lánin. Séu lánin látin bera markaðsvexti má reikna með að tap Íslandspóst af ePósti nemi hátt í hálfan milljarð króna.
Félag atvinnurekenda telur að Ríkisendurskoðun sé vanhæf þar sem stofnunin endurskoði reikninga Íslandspósts
Félag atvinnurekenda hefur sent Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, erindi og hvatt til þess að ráðuneyti hans óski eftir óháðri úttekt á rekstri Íslandspósts. Ólafur Stephenssen, framkvæmdastjóri FA telur að ef ráðist verður í úttekt þá yrði að fá utanaðkomandi aðila til verksins. Hann bendir á að Póst- og fjarskiptastofnun telji það ekki sitt hlutverk að rannsaka slíkt og þá er Ríkisendurskoðun vanhæf þar sem stofnunin endurskoði reikninga Íslandspósts.
Í lögum um Ríkisendurskoðandi segir að Ríkisendurskoðandi skal upplýsa Alþingi og stjórnvöld um málefni sem varða rekstur og fjárreiður ríkisins, leiða í ljós frávik frá lögum og reglum á því sviði og gera tillögur að úrbótum, bættri stjórnsýslu, skýrari ábyrgð og betri nýtingu ríkisfjár.
Stjórnsýsluendurskoðun Ríkisendurkoðandi, sú skoðun sem Jón Þór segist ætla að óska eftir, felur í sér mat á frammistöðu hefur eftirlit með. Markmið stjórnsýsluendurskoðunar er að stuðla að úrbótum þar sem horft er til ákveðinni atriða þar á meðal meðferðar og nýtingar ríkisfjár, hvort hagkvæmni og skilvirkni gætir í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins og hvort framlög ríkisskins skili þeim árangri. Í lögunum segir að við mat á frammistöðu skal meðal annars líta til þess hvort starfsemi sé í samræmi við fjárheimildir, þá löggjöf sem gildir um hana og góða og viðurkennda starfshætti.