Náttúruverndarsamtökin Icelandic Wildlife Fund gagnrýna frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Samtökin segja í yfirlýsingu sem birt var á Facebook í gærkvöldi að frumvarpið sé „stríðsyfirlýsing á hendur þeim sem vernda vilji lífríkið og starfa á vísindalegum grundvelli."
Ráðherra tekið stöðu með hagsmunagæslumönnum
Samtökin gagnrýna breytingartillöguna við 7. grein í frumvarpsdrögunum, í henni er lagt til að ráðherra staðfesti tillögur Hafrannsóknarstofnunar um áhættumat erfðablöndunar eldislax við villta laxa. Drögin að frumvarpinu má lesa á samráðsgátt ríkisstjórnarinnar.
Í fyrra frumvarpinu var það Hafrannsóknastofnunin sem gaf áhættumatið út án aðkomu ráðherra. Í yfirlýsingu IWF segir að það sé algjörlega óásættanlegt að áhættumatið verði gert pólitískt með þessum hætti. „Með því að leggja þessi drög fram hefur ráðherra sýnt svo ekki verður um villst að hann hefur tekið sér stöðu með hagsmunagæslumönnum sjókvíaeldisfyrirtækjanna gegn vísindamönnum Hafrannsóknarstofnunar og náttúruverndarsamtökum.“
Gengið sé fram hjá vísindalegum vinnubrögðum
Samkvæmt núverandi áhættumati Hafrannsóknarstofnunar er gert ráð fyrir að allt að 4 prósent fiska í ám landsins séu fiskar sem hafa sloppið úr eldi. Í yfirlýsingunni er þetta harðlega gagnrýnt. „Með öðrum orðum að 1 af hverjum 25 fiskum í íslenskum ám geta verið norskir eldislaxar. Það er óhugnanleg tala. Sjókvíaeldisfyrirtækjunum finnst þetta áhættumat hins vegar ganga of langt og vilja fá þröskuldinn hækkaðan verulega,“ segir í yfirlýsingu IWF á Facebook.
Enn fremur segir í yfirlýsingunni að sjókvíaeldisfyrirtækin vilji fá svigrúm frá löggjafanum til enn rýmri mistaka. Þau segja að Hafrannsóknarstofnun hafi mátt sæta þungum þrýstingi frá fyrirtækjnum og að Landssamband fiskeldisstöðva hafi meðal annars óskað eftir því í fyrra að stofnunin myndi endurskoða matið. Hafrannsóknarstofnun hafnaði því og segir í yfirlýsingunni að „nú ætli ráðherra að taka valdið til sín svo hægt verði að ganga fram hjá vísindalegum vinnubrögðum.“
Samtökin munu berjast gegn því að frumvarpið verði óbreytt að lögum með öllum tiltækum ráðum
Þá gagnrýnir IWF einnig ákvæði ráðherrans um samráðsvettvang, sem ætlaður er stjórnvöldum til ráðgjafar vegna málefna fiskeldis. Hlutverk vettvangsins er að leggja mat á forsendur og úrvinnslu þeirra gagna sem áhættumat erfðablöndunar byggir á. Segir í yfirlýsingu IWF að ákvæðið sé afar sérstakt. „Ekki er gert ráð fyrir að í þessum sjö manna samráðsvettvangi taki sæti vísindafólk til að rýna fræðilegar niðurstöður og gögn Hafrannsóknarstofnunar, heldur mun vettvangurinn vera skipaður þremur fulltrúum ráðherra, einum fulltrúa eldisfyrirtækjanna, einum frá sambandi íslenskra sveitarfélaga og svo loks einum frá Hafrannsóknarstofnun og einum frá Landssambandi veiðifélaga.“
IWF segir þetta fráleitt fyrirkomulag. „Engin ástæða er til að efast um að þetta á fyrst og fremst að vera vettvangur fulltrúa ráðherra til að færa honum í hendur þá niðurstöðu sem hann vill og gefa honum þannig skjól til að fara gegn mati Hafrannsóknarstofnunar," segir í yfirlýsingunni.
Að lokum segir í yfirlýsingunni að „IWF mun berjast gegn því að þetta frumvarp verði óbreytt að lögum með öllum tiltækum ráðum.“
Ráðherra ræðst til atlögu gegn vísindum og lífríki Íslands Drög Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og...
Posted by Icelandic Wildlife Fund on Sunday, January 6, 2019