Nordea, stærsti banki Norðurlanda, verður hluthafi í íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Meniga í kjölfar kaupa Meniga á öllu hlutafé í sænska fyrirtækinu Wrapp. Kaupin gera Meniga að stærsta fyrirtæki á sviði endurgreiðslutilboða á Norðurlöndunum en með kaupunum hyggst Meniga keppa við Google og Facebook um að verða markaðsleiðandi í stafrænum auglýsingum í Evrópu.
Sérhæfir sig í sérsniðnum tilboðum
Sænska fyrirtækinu Wrapp sérhæfir sig í sérsniðnum tilboðum til neytenda í Svíþjóð og Finnlandi og starfa með rúmlega 350 fyrirtækjum. Allir starfsmenn Wrapp munu færast yfir í sameinað fyrirtæki sem mun starfa undir merkjum Meniga en með kaupunum verða Meniga að stærsta fyrirtæki á sviði endurgreiðslutilboða á Norðurlöndunum.
Fyrrum eigendur Wrapp verða hluthafar í Meniga en á meðal þeirra er bankinn Nordea. Nordea bætist þá í hóp Swedbank, UniCredit og Íslandsbanka sem hafa þegar fjárfest í Meniga.
Meniga hefur starfrækt fríðindakerfi á Íslandi síðan 2014 í samvinnu við yfir 200 fyrirtæki. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að með kaupunum á Wrapp munu verslanir og fyrirtæki á Norðurlöndum nú geta boðið neytendum sérsniðin endurgreiðslutilboð og fá skýran valkost við auglýsingakerfi á borð við Facebook og Google. Auglýsingakerfið er eitt fyrsta sinnar tegundar í heiminum og býður bönkum að vinna saman að því að bjóða neytendum tilboð í gegnum snjallsímaapp og netbanka, samkvæmt tilkynningunni.
Neytendur vilja í auknum mæli að gögn þeirra séu nýtt til að skapa persónulega upplifun
Georg Lúðvíksson, forstjóri og einn stofnandi Meniga, segir að bankar séu í einstakri stöðu til að skapa aukið virði fyrir viðskiptavini sína með sérsniðnum tilboðum og verða þannig markaðsleiðandi á stafrænum auglýsingamarkaði. „Neytendur eru í auknum mæli að fara fram á að gögnin þeirra séu nýtt til þess að skapa aukið virði og persónulega upplifun á þeirri vöru sem þeir nýta. Að sama skapi vilja þeir að farið sé með gögnin þeirra á ábyrgan og gagnsæjan hátt,“ segir Georg í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Meniga var stofnað árið 2009 og eru starfsmenn eftir samrunann um 150. Hugbúnaður Meniga hefur verið innleiddur hjá yfir 75 fjármálastofnunum og er hann aðgengilegur yfir 65 milljónum einstaklinga í 30 löndum. Starfsstöðvar fyrirtækisins verða sem fyrr í Reykjavík en einnig er fyrirtækið með skrifstofur í Lundúnum, Stokkhólmi og Varsjá. Skrifstofan í Stokkhólmi hefur nú sameinast skrifstofu Wrapp þar í borg og skrifstofa Wrapp í Helsinki bætist við hópinn.