Eftirlit Fiskistofu með brottkasti er veikburða og ómarkvisst, samkvæmt stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á eftirliti Fiskistofu sem kynnt var í gær. Í úttektinni kemur einnig fram að eftirlit með stofnuninni með vigtun sjávarafla sé takmarkað og efast megi um að eftirlitið skili tilætluðum árangri. Jafnframt telur Ríkisendurskoðun að samþjöppun aflaheimilda styðji ekki með viðunandi hætti við markmið laga um stjórn fiskveiða og umgengi um nytjastofna sjávar.
Vísa því á bug að brottkast sé óverulegt á Íslandi
Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar var unnin að beiðni Alþingis. Í úttektinni er mati atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins um að brottkast sé „óverulegt“ á Íslandi vísað á bug. Ríkisendurskoðun bendir á á að innan fiskveiðikerfisins sé mikill hagrænn hvati til þess að stunda brottkast. Vegna veikleika eftirlitsins sé í raun engin forsenda til þess að fullyrða um umfang brottkasts hér við land. Jafnframt segir í úttektinni að við upplýsingaöflun vegna úttektarinnar hafi komið fram skýrar áhyggjur af því að brottkast ætti sér stað í talsverðum mæli. Ríkisendurskoðun gagnrýnir það sérstaklega að mat ráðuneytisins á umfangi brottkasts byggist meðal annars á lýsingum hagsmunaaðila.
Ríkisendurskoðun telur að það sé Fiskistofu í raun ómögulegt að sinna öllu því eftirliti sem henni ber að sinna, meðal annars vegna skorts á úrræðum og viðurlögum. Þá er tekið fram að hvorki liggi fyrir skýr árangursmarkmið né árangursmælingar í eftirliti með brottkasti og að auka þurfi viðveru eftirlitsmanna um borð í fiskiskipum og horfa til tækninýjunga við eftirlit. Þá er lagt til að gerðar verði skýrar kröfur um aðstöðu til vigtunar og eftirlit hafnaryfirvalda.
Auka megi samstarf Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar
Í skýrslunni mælist Ríkisendurskoðun til þess að kannað verði hvort auka megi samstarf Fiskistofu og Landhelgisgæslu Íslands við eftirlit með brottkasti. Eyþór Björnsson, Fiskistofustjóri, sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að Fiskistofu vanti meiri mannskap líkt og komi fram í skýrslunni og að rétt sé að skoða þurfi regluverkið. Hann segir jafnframt að öll atriði skýrslunnar verði skoðuð innandyra hjá Fiskistofu. Hann segir jafnframt að nú þegar sé unnið að því að efla starfsemi hafnanna og fylgir Landhelgisgæslan því eftir. „En eins og stendur í skýrslunni þá þarf að auka viðveru eftirlitsmanna um borð en það gerist ekki nema með meiri mannskap,“ segir Eyþór að lokum.
Formaður Viðreisnar segir ábyrgð útgerðar mikla
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir ábyrgð útgerðamanna mikla í baráttunni gegn brottkasti, í samtali við Fréttablaðið í dag. „Það þarf að taka þetta mál föstum tökum. Það er margt í húfi, meðal annars orðspor okkar sem fiskveiðiþjóðar sem blessunarlega tók þá ákvörðun að vera með sjálfbærar veiðar og byggja á vísindalegri nálgun,“ segir Þorgerður Katrín, um niðurstöðu stjórnsýsluúttektarinnar um Fiskistofu.
Þorgerður ítrekar að útgerðin verði að standa undir ábyrgð. „Langflestir gera það en SFS verður hér að sýna afgerandi forystu og taka hressilega á þessu þó að einhverjir innan þeirra raða verði missáttir. Þetta er ekki einkamál útgerðarmanna og sjómanna. Langt í frá, þótt ríkisstjórnin vilji vinna málið þannig,“ segir Þorgerður að lokum.