Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem sitja í umhverfis- og samgöngunefnd hafa lýst því yfir að þau vilji ekki að Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, verði áfram formaður nefndarinnar. Þingflokksformenn auk forseta þingsins munu ræða formennsku nefndarinnar á fundi næstkomandi mánudag, þar sem ljóst sé að Bergþór njóti ekki meirihlutastuðnings til að sitja í nefndinni. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Segir Bergþór vita að hann hafi ekki stuðning sem formaður
Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, tilkynntu í gærmorgun að þeir myndu taka aftur sæti á þingi. Þeir tóku óvænt þátt í þingstörfum í gær og voru meðal annars viðstaddir óundirbúnar fyrirspurnir.
Á þingflokksformannafundi síðdegis í gær voru málefni þingsins og vinnufriður rædd. Meðal þess sem rætt var á fundinum voru málefni umhverfis- og samgöngunefndar en Bergþór er formaður nefndarinnar. Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna og nefndarmaður umhverfis- og samgöngunefnd, segir í samtalti við Fréttablaðið í dag að Bergþóri sé ljóst að hann hafi ekki stuðning til áframhaldandi setu sem formaður í nefndinni.
„Bergþór kemur og hefur rétt til að ganga inn í nefndina og rétt til að taka sitt sæti sem hann hafði. Við getum ekki sagt nei. Málið er að hann er þarna samkvæmt samkomulagi minnihlutaflokkanna,“ segir Ari Trausti Guðmundsson.
Hann segir það vera staðreynd að stjórnarandstaðan hafi fengið þrjá formannsstóla í nefndir þingsins og raðað þar niður eftir þingstyrk. „Þau fengu þrjá formenn nefnda eftir ákveðnu samkomulagi og því er það þeirra að leysa þetta mál og nú hefur bæði fulltrúi Viðreisnar og Samfylkingar og einnig fulltrúi Vinstri grænna lýst yfir að þau vilji ekki að hann leiði þetta áfram og það er honum alveg ljóst,“ segir Ari Trausti.
Líklegt að einhver annar úr Miðflokknum komi í hans stað
Ari Trausti segir nokkra möguleika í stöðunni en að minnihlutaflokkarnir verði að leysa málið sín á milli. „Við þurfum ekkert að kjósa því ef minnihlutinn ræðir saman þá getur hann stigið til hliðar og einhver annar úr Miðflokknum komið inn í hans stað.“
„Við í meirihlutanum erum í raun og veru ekki að vasast með þetta mál, þetta er í höndum minnihlutans. En þetta verður rætt í hópi þingflokksformanna á mánudag,“ segir Ari Trausti að lokum.
Þingflokksformenn og þingforseta munu fara yfir stöðu nefndarinnar eftir helgi en líklegt þykir að Bergþór þurfi að hætta sem formaður til að þess vinnufriður á þingi náist.