Ísland er enn og aftur spilltasta land Norðurlandanna samkvæmt lista Transaparency International fyrir árið 2018. Samtökin reikna út sérstaka spillingarvísitölu fyrir 180 lönd og raðar þeim á lista, spillingarvísitalan nær frá 0 upp í 100 þar sem 0 er algjör spilling en 100 engin spilling. Ísland lækkar í einkunn þriðja árið í röð og mælist nú með aðeins 76 stig af hundrað og situr í 14 sæti. Öll önnur ríki á Norðurlöndum skipa sér í sjö efstu sætin á listanum.
Bakslag í baráttunni gegn spillingu hér á landi
Danmörk er efst á listanum sem það ríki veraldar þar sem minnst spilling ríkir með 88 stig af hundrað. Fjórtán af þeim tuttugu ríkjum þar sem minnst spilling ríkir tilheyra Vestur-Evrópu en Sómalía er spilltasta ríkið á listanum með aðeins 10 stig. Í skýrslu Transperncy International segir að það gangi illa að berjast gegn spillingu í heiminum en síðan 2012 hafa aðeins 20 lönd bætt sig þegar það kemur að baráttunni gegn spillingu en alls 43 lönd staðið í stað.
Spillingarvísitala Transpareny International er byggð á áliti sérfræðinga sem og almennri skynjun á spillingu í opinberum stofnunum og stjórnsýslu. Stofnunin sækir upplýingar sínar til allt að tólf mismunandi greiningarfyrirtækja og hvað Ísland varðar eru notaðar fimm gagnauppsprettur. Þau lönd sem fá hæsta einkunn eiga það sameiginlegt að þar er stjórnsýsla opin og almenningur getur dregið stjórnendur til ábyrgðar. Lægstu einkunnir fá lönd þar sem mútur eru algengar, refsileysi ríkir gagnvart spillingu og opinberar stofnanir sinna ekki hlutverki sínu í þágu borgaranna.
Ákveðið bakslag hefur átt sér stað í baráttunni gegn spillingu hér landi en í ár lækkar Ísland í einkunn þriðja árið í röð. Ísland var í fyrsta sæti listans árin 2005 og 2006 en frá efnahagshruninu 2008 hefur leiðin legið niður á við. Árið 2010 var Ísland í 10. sæti en síðustu þrjú ár hefur Ísland rokkað á milli 13. og 14. sæti listans. Ísland telst enn vera það land Norðurlanda þar sem mest spilling þykir ríkja en frá árinu 2010 höfum við raðast aftast allra Norðurlandanna á listann.
Meirihluti Íslendinga telur að margir eða nánast allir stjórnmálamenn á Íslandi séu viðriðnir spillingu
Samkvæmt mælingum samtakanna Transaparency International hefur íslenskum ráðamönnum því ekki tekist að snúa viðhorfi Íslendinga við gagnvart spillingarhættum og spillingu í landinu eftir hrun. Kannanir hér á landi hafa sýnt svipaðar niðurstöður en í desember birti Félagsvísindastofnun könnun þar sem fram kom að tveir af hverjum þremur Íslendingum telja að margir eða allir íslenskir stjórnmálamenn séu spilltir.
Könnunin var framkvæmd dagana 4. til 17. desember sem þýðir að könnunin var gerð eftir að fréttir um hið svokallaða Klaustursmál hófu að birtast. Í könnunni kom fram að fjöldi þeirra sem telja marga eða alla stjórnmálamenn á Íslandi viðriðna spillingu hefur næstum því tvöfaldast frá árinu 2016. Alls telja 65 prósent landsmanna að margir eða nánast allir stjórnmálamenn á Íslandi séu viðriðnir spillingu. Að sama skapi telja einungis tvö prósent landsmanna að nánast engin þingmaður sé spilltur, en það hlutfall var sjö prósent árið 2016 . Þetta er talsverð aukning frá árinu 2016, þegar Panamaskjölin voru opinberuð, en þá töldu 34 prósent landsmanna að margir eða nánast allir íslenskir stjórnmálamenn væru spilltir.
Auk þess segjast fleiri ekki treysta Alþingi neitt í könnunni en gerðu það fyrir fimm árum síðan þegar sömu spurningar voru lagðar fyrir í sambærilegri könnun. Nú segjast 18 prósent landsmanna bera alls ekkert traust til Alþingis en það hlutfall var 16 prósent árið 2013. Í niðurstöðum könnunarinnar kemur jafnframt fram að 62 prósent landsmanna telja að það myndi auka traust þeirra til Alþingis mikið ef meira væru um afsagnir þingmanna í kjölfar mistaka.
Tuttugu prósent segjast bera traust til fjármálakerfisins
Græðgi, spilling, hrun og okur voru orðin sem komu upp í hugann hjá þjóðinni þegar fólk var spurt um fjármálakerfið hér á landi, í könnun fyrir starfshópinn sem vann að Hvítbókinni um fjármálakerfið í fyrra. Traust á fjármálakerfinu hefur þó farið hægt og bítandi upp á við, en um 20 prósent sögðust berast traust til fjármálakerfisins í sömu könnun.
Algengasta ástæðan sem fólk nefndi, þegar það var spurt út í það hvernig mætti auka traust á fjármálakerfinu, var oftast nefnt að bæta mætti kjörin og þjónustuna. Um 26,4 prósent svarenda nefndu að bæta mætti vaxtakjörin og rúmlega 20 prósent að draga þyrfti úr græðgi og spillingu.