Formenn VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness telja ekki vera „brest í blokkinni“ eins og gefið er í skyn í frétt á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Í henni segir að ólíkir hagsmunir félagsmanna gætu gert verkalýðsfélögum í samfloti erfitt að klára kjaraviðræður saman.
Að mati heimildarmanna Fréttablaðsins hafa verkalýðsfélögin of ólíka hagsmuni til að geta klárað viðræður við Ríkissáttasemjara í samfloti. „Formenn Verkalýðsfélags Akraness og VR hafi sameiginlega hagsmuni af því að ræða vexti, verðtryggingu, vísitölu og húsnæðismál en formaður Eflingar þarf að semja um kjör hinna lægst launuðu. Formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur er sagður á svipuðum nótum og formaður Eflingar enda að semja fyrir fiskverkafólk á svipuðum launakjörum og félagsmenn Eflingar,“ segir í frétt Fréttablaðsins.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í samtali við Kjarnann þetta vera yfirgengilega framsett. Hópurinn hafi aldrei verið sterkari og að þau hafi frekar verið að þétta í röðum sínum.
Mun veikja félögin og málstaðinn ef þau standa ekki þétt saman
„Vissulega geta hagsmunir einstakra félaga verið mismunandi í einhverjum tilfellum. En skörunin er mun meiri heldur en hitt. Það er okkar allra hagur, hagur samfélagsins, að hér geti fólk lifað af dagvinnulaunum,“ segir Ragnar Þór og bætir því við að í kröfugerðum félaganna komi þetta berlega í ljós þar sem eitthvað af brýnum hagsmunamálum sé að finna fyrir alla hópa.
„Eitt er þó víst að það mun veikja öll félögin og málstað okkar allra ef við stöndum ekki þétt saman í að lækka hér kostnað við að lifa og hækka launin samhliða því.
Það er sameiginlegt verkefni okkar allra og tökum við ábyrgð okkar í þeirri vegferð mjög alvarlega,“ segir hann.
„Ódýrasti fjölmiðlaspuni ársins“
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tekur í sama streng og Rangar Þór en hún segir að frétt Fréttablaðsins eigi ekki við rök að styðjast.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, gagnrýnir forsíðufrétt Fréttablaðsins í Facebook-færslu í morgun og segir hana fjölmiðlaspuna. „Ódýrasti fjölmiðlaspuni ársins er þó ekki of ódýr fyrir forsíðu Fréttablaðsins!“ segir í færslunni.
Í samtali við Kjarnann segir hann að engin breyting hafi orðið á samstöðu verkalýðsfélaganna og að samstaðan sé ennþá mjög þétt. Aðspurður um ólíka hagsmuni félagsmannanna segir hann að það sé rétt að innan félaganna sé ólík samsetning félagsmanna en hann bendir á að félögin þrjú hafi eytt næstum því heilu ári í að stilla saman strengi félaganna og samrýmast um kröfur.
Réttlætanlegt að ákveðnar starfsstéttir beiti verkfalli
Í frétt Fréttablaðsins segir að félagsmenn verkalýðsfélaganna gætu haft mjög ólíka afstöðu til verkfalls og telja heimildir blaðsins að ólíklegt sé að verkfall verði samþykkt af félagsmönnum VR. Viðar segir að hann hafi ekki séð nein gögn um afstöðu félagsmanna VR til verkfalla en vísar í könnun MMR frá því í desember í fyrra þar sem fram koma að nærri þrír af hverjum fjórum Íslending um, 74 prósent, segja það réttlætanlegt að ákveðnar starfsstéttir beiti verkfalli á næstu misserum til að ýta eftir bættum starfskjörum. Rúmur meirihluti, 59 prósent, sagðist jafnframt tilbúinn að taka þátt í verkfalli til að bæta starfskjör sín og/eða annarra. Viðar segir það því ekki liggja fyrir að félagsmenn Eflingar séu einir um að vilja fara í verkfall, en í nýrri könnun Gallup kemur fram að tæp 80 prósent félagsmanna Eflingar séu hlynntir því að fara í verkfall til að knýja á launakröfur verkalýðsfélaganna.
Ódýrasti fjölmiðlaspuni ársins er þó ekki of ódýr fyrir forsíðu Fréttablaðsins!
Posted by Vidar Thorsteinsson on Monday, February 18, 2019
Standa og falla saman
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir í samtali við Fréttablaðið það algerlega af og frá að um bresti í samstöðu félaganna fjögurra sé að ræða. „Við erum mjög samhent í þessari vinnu og stöndum og föllum með henni saman.“ Hann segir fund forsetateymis ASÍ með stjórnvöldum á morgun geta haft úrslitaáhrif á hvort samningar náist en næsti fundur félaganna fjögurra hjá Ríkissáttasemjara verður á fimmtudag.