Haturshópum fjölgaði í Bandaríkunum á síðasta ári samanborðið við árið áður en þeir fóru úr 954 í 1020. Þetta er fjórða árið í röð sem haturshópum fjölgar en 30 prósent aukning fylgdi í kjölfar kosningabaráttu og forsetatíð Donalds Trump eftir að talan hafði lækkað í þrjú ár í röð í lok stjórnartíðar Baracks Obama. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu samtakanna the Southern Poverty Law Center.
Sams konar aukning varð á sama tímabili í ofbeldi af völdum kynþáttafordóma og gyðingahaturs. Tölfræði alríkislögreglunnar FBI sýnir að hatursglæpum fjölgaði um 30 prósent á þriggja ára tímabili, frá 2014 til 2017.
Alríkislögreglan skilgreinir hatursglæp sem glæp gegn einstaklingi eða eignum sem er að fullu eða að hluta til vegna fordóma brotamanns gegn öðrum kynþáttum, trúarbrögðum, fötlun, kynhneigð, þjóðerni, kyni eða kynvitund.
Hatrið hefur tætt samfélagið
„Tölurnar segja okkur svo ekki verður um villst að þessi forseti er ekki aðeins þrætuepli í samfélaginu heldur róttæknivaldur,“ segir Heidi Beirich, formaður rannsóknarverkefnateymis samtakanna the Southern Poverty Law Center. „Í stað þess að reyna að vinna gegn hatri, eins og aðrir forsetar úr báðum flokkum hafa gert, ýfir Trump forseti það upp, bæði með orðræðu sinni og stefnumálum. Með því hefur hann gefið fólki víðs vegar í Bandaríkjunum grænt ljós til að láta undan verstu hvötum sínum.“
„Hatur hefur tætt samfélag okkar í sundur,“ segir forseti SPLC, Richard Cohen. „Til að binda það aftur saman munu allir kimar samfélags okkar þurfa að leggja sitt af mörkum – fjölskyldur okkar, skólar, trúarsamtök, félagasamtök og fyrirtæki. Fyrst og fremst verður forysta nauðsynleg – stjórnmálaleg forysta – sem hvetur þjóð okkar til að standa undir æðstu hugsjónum sínum.”