Tryggvi Helgason barnalæknir telur það líklegt að með tilfærslu klukkunnar muni hreyfing ungmenna minnka. Hann bendir á að með tilfærslu klukkunnar fækki björtum stundum að loknum skóla- og vinnudegi en rannsóknir hafi sýnt að tengsl séu á milli dagsbirtu og hreyfingar unglinga hér á landi. Í ritstjórnargrein sinni í nýjasta tölublaði Læknablaðsins gagnrýnir Tryggvi að engin áhersla hafi verið lögð á áhrif klukkunnar á hreyfingu ungmenna hvorki í skýrslu starfshóps forsætisráðherra um klukkubreytinguna né í umfjöllun fjölmiðla. Enn fremur segir hann skýrslu starfshópsins vera einhliða og mikið gert úr kostum klukkubreytingar en lítið úr göllum.
Meirihluti Íslendinga vill seinka klukkunni
Starfshópur á vegum forsætisráðherra skilaði skýrslu í janúar um hvort að færa ætti staðartíma hér á landi nær sólartíma miðað við hnattræna legu landsins. Í tilkynningu frá ráðuneytinu um málefnið segir að rannsóknir sýni að nætursvefn Íslendinga sé almennt séð of stuttur en slíkt geti verið heilsuspillandi og haft áhrif á námsárangur og framleiðni í atvinnulífinu. Sérstaklega sé þetta áhyggjuefni vegna barna og ungmenna. Ein líkleg skýring sé að klukkan sé ekki í samræmi við hnattræna legu landsins.
Þrír valkostir eru settir fram í skýrslunni. Í fyrsta lagi er lagt til að staðan verði óbreytt og klukkan áfram einni klukkustund fljótari en ef miðað væri við hnattstöðu. Með fræðslu sé fólk aftur á móti hvatt til að ganga fyrr til náða. Í öðru lagi að klukkunni verði seinkað um eina klukkustund frá því sem nú er, í samræmi við hnattstöðu landsins. Sem dæmi er tekið að ef klukkan er 11:00 nú þá verði hún 10:00 eftir breytingu. Í þriðja lagi er lagt til að klukkan verði áfram óbreytt en skólar og jafnvel fyrirtæki og stofnanir hefji starfsemi seinna á morgnana.
Eftir að skýrsla starfshópsins var kynnt í janúar kannaði Maskína afstöðu landsmanna gagnvart breyttri klukku. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar vill meirihluti, eða á milli 63 og 64 prósent, Íslendinga að klukkunni verði seinkað um eina klukkustund frá því sem nú er. Á bilinu 36 til 37 prósent þeirra vilja óbreytta stöðu klukkunnar. Um 23 prósent vilja að með fræðslu verði fólk hvatt til að ganga fyrr til náða og á milli 13 og 14 prósent myndu vilja að skólar, fyrirtæki og stofnanir hefji starfsemi seinna á morgnana.
Segir lítið fjallað um neikvæð áhrif breyttrar klukku
Í ritstjórnargrein sinni „Geta vísindi klukkað samfélagið?“ segir Tryggvi að skýrsla starfshópsins hafi verið góð og ítarleg um kosti breyttrar klukku en að hún hafi hins vegar mjög lítið fjallað um neikvæð áhrif breytingarinnar. Hann segir að í starfshópnum hafi ekki verið neinn fulltrúi frá íþróttahreyfingunni sem hafi ítrekað gert athugasemdir við fyrri frumvörp er varða breytingu á klukkunni. Jafnframt gagnrýnir hann í grein sinni framsetningu tillagna starfshópsins og segir hana hafa verið einhliða.
Í greinargerðinni er greint frá því að klukkubreyting geti lagað of stuttan svefn og í mörgum atriðum hvaða breytingar gætu orðið ef svefn þjóðarinnar lengist.
Tryggvi bendir aftur á móti á að aðeins í einu atriði er minnst á að minna dagsljós gæti minnkað hreyfingu en ekkert um hvaða afleiðingar það hefur. Hann segir að með fækkun bjartara stunda að loknum skóla- og vinnudegi megi telja það líklegt að hreyfing ungmenna minnki. Í grein sinni nefnir hann samantektarrannsókn úr stórum gagnagrunni hreyfimæla í níu löndum þar sem niðurstaðan er að aukin dagsbirta í formi sumartíma sé líkleg til að auka hreyfingu ungmenna og nýlega innlenda rannsókn, sem starfshópurinn vitnaði í varðandi svefn barna, þar sem tengsl fundust milli dagsbirtu og hreyfingar unglinga hér á landi, sérstaklega stúlkna. Hann gagnrýnir því að engin áhersla hafi verið lögð á þetta í skýrslunni né í umfjöllun fjölmiðla þó að til sé rannsóknir sem bendi til slíkra áhrifa.
Einhliða framsetning litar fjölmiðlaumræðu
Í grein sinni fjallar Tryggvi jafnframt um hvernig einhliða framsetning á kostum og göllum klukkubreytingar í skýrslunni hafi síðan litað umræðu fjölmiðla. „Það var ekki annað að heyra af umræðunni en að svefnvandi unglinga væri auðleyst mál með klukkubreytingu og í raun val um hvort við fræddum þjóðina um mikilvægi svefnsins eða bara einfaldlega breyttum klukkunni og þá væri sá vandi úr sögunni. Að það væri bara fínt að leysa of stuttan svefn hjá heilli þjóð svona,“ segir í greininni.
Að lokum segir hann að til þess að samráðsgátt stjórnvalda nýtist sem skyldi sé mikilvægt að strax í upphaflegri kynningu mála séu með hlutlausum hætti kynntir kostir og gallar breytinga sem fyrirhugaðar eru. Þannig átti lesendur sig á að stjórnvöld hafi vegið og metið bæði kosti og galla breytinga og í kjölfarið lagt til þá breytingu sem á að gera. Hann segir að þannig myndist traust á að ákvörðunin sé rétt, umræðan á eftir verði markvissari og styðji betur við ákvarðanaferlið.
Skýrslan um klukkubreytinguna er nú í samráðsgátt stjórnvalda og er umsagnafrestur til 10. mars næstkomandi.