Þrír voru handteknir við Alþingishúsið á öðrum tímanum í dag eftir að lögreglan var kölluð þangað vegna hóps af fólki sem hindraði aðgengi að húsinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni sem send var á fjölmiðla í dag.
Í henni segir að þremenningarnir hafi ekki hlítt ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að láta af þessari háttsemi og hafi þeir verið handteknir eins og áður sagði.
Samtökin Refugees in Iceland fjölluðu um handtökuna á Facebook-síðu sinni í dag en þar kemur fram að um friðsöm mótmæli hafi verið að ræða. „Við stóðum ekki fyrir framan inngang Alþingishússins til þess að hindra aðgang fólk að fara inn. Heldur til að fá það til að taka eftir okkur,“ segir í færslunni.
Enn fremur kemur fram hjá Refugees in Iceland að lögreglan hafi mætt á staðinn, ýtt þeim til hliðar og handtekið þrjár manneskjur. „Núna erum við á leiðinni á lögreglustöðina á Hverfisgötu. Vinsamlegast komið með okkur.“
Now three members of our peaceful protest in front of Alþingi have been arrested. We stood in front of the entrances to...
Posted by Refugees in Iceland on Tuesday, March 19, 2019
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir í samtali við mbl.is að fólkið hafi raðað sér upp fyrir framan þinghúsið við aðalinnganginn og einnig bakdyramegin. Sömuleiðis hafi það raðað sér upp fyrir framan innganginn á bílastæðið. Einhverjir þingmenn hafi getað lagt á bílastæðinu en aðrir hafi þurft að leggja annars staðar. Uppátækið hafi þó ekki truflað störf þingsins.