Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að skýrsla bankans um neyðarlánið sem veitt var Kaupþingi í október 2008 og söluferlið á danska bankanum FIH sem tekinn var að veði fyrir lánveitingunni verði birt þann 30. apríl næstkomandi. Þetta kemur fram í viðtali við Má í Viðskiptamogganum í dag. Skýrslan verður fyrst kynnt á fundi bankaráðs þann 26. apríl en fjórum dögum síðar verður hún kynnt opinberlega.
Skýrslugerðin boðuð fyrir fjórum árum
Seðlabankinn hefur árum saman unnið að skýrslu um tildrög þess að Kaupþing fékk 500 milljóna evra neyðarlán þann 6. október 2008. Upphaflega var skýrslugerðin boðuð í febrúar 2015 en nú, fjórum árum síðar, hefur hún enn ekki verið birt. Skýrslan nær einnig yfir söluferlið á danska bankanum FIH, sem var tekinn að veði fyrir lánveitingunni. Mun minna fékkst fyrir það veð en lagt var upp með og áætlað er að tap íslenskra skattgreiðenda vegna neyðarlánsins hafi numið 35 milljörðum króna.
Í svari Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við fyrirspurn Jóns Steindórs Valdimarssonar, þingmanns Viðreisnar, um neyðarlánveitinguna, sem birt var á vef Alþingis 14. nóvember 2018, kom fram að hún ætlaði að óska eftir því að Seðlabanki Íslands myndi óska svara frá Kaupþingi ehf. um ráðstöfun umræddra fjármuna og að bankinn myndi greina frá niðurstöðum þeirra umleitana í skýrslu.
Í viðtali í sjónvarpsþættinum 21 þann 6. mars síðastliðinn sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, að Seðlabankinn væri kominn með svar frá Kaupþing um hvað hafi orðið um neyðarlánið sem bankinn fékk frá Seðlabankanum. Már sagði í viðtalinu að skýrslan yrði kláruð í nánustu framtíð en staðfestir nú í Viðskiptamogganum að hún verði birt opinberlega í lok apríl.
Ekki til nein lánabeiðni frá Kaupþingi í Seðlabankanum
Í bókinni Kaupthinking: Bankinn sem átti sig sjálfur, sem kom út í nóvember 2018, er aðdragandinn að veitingu neyðarlánsins rakinn ítarlega og ýmsar áður óbirtar upplýsingar birtar um þann aðdraganda. Þar voru einnig birtar nýjar upplýsingar um hvernig neyðarláninu var ráðstafað. Á meðal þess sem þar er greint frá er að þann 21. apríl 2008 var samþykkt sérstök bankastjórnarsamþykkt, nr. 1167, um hver viðbrögð Seðlabanka Íslands við lausafjárvanda banka ætti að vera. Í reglunum var sérstaklega kveðið á um að skipa ætti starfshóp innan bankans til að takast á við slíkar aðstæður og gilda ætti ákveðið verklag ef aðstæður sem kölluðu á þrautarvaralán kæmu upp. Verklaginu var skipt í alls sex þætti. Í samþykktinni var líka fjallað um við hvaða skilyrði lán til þrautavara kæmu til greina og í henni var settur fram ákveðinn gátlisti vegna mögulegra aðgerða Seðlabankans við slíkar aðstæður.
Þegar Kaupþing fékk 500 milljónir evra lánaðar 6. október 2008, sama dag og neyðarlög voru sett á Íslandi, var ekki farið eftir þeirri bankastjórnarsamþykkt. Þá er ekki til nein lánabeiðni frá Kaupþingi í Seðlabankanum og fyrir liggur að Kaupþingi var frjálst að ráðstafa láninu að vild.