Sólarhringsverkfall félagsmanna Eflingar og VR á hótelum og hjá hópbifreiðafyrirtækjum hófst á miðnætti. Ríflega 2000 félagar í Eflingu og VR taka þátt í verkfallinu en meirihluti þeirra starfar á 40 hótelum á félagssvæði stéttarfélaganna en hluti þeirra starfar hjá hópbifreiðafyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu.
Fjölmiðlabann á samninganefndir
Fulltrúa VR, Eflingar, Framsýnar, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur funduðu með fulltrúum SA í um níu klukkutíma í gær en fundinum var slitið hjá Ríkissáttasemjara á áttunda tímanum í gærkvöld án niðurstöðu. Ríkissáttasemjari setti fjölmiðlabann á samninganefndir deiluaðila í gær og ríkir því enn trúnaður um allt sem við kemur viðræðunum.
Búist er við mikilli truflun á allri starfsemi hótelanna fjörutíu í dag en auk þess hafa verið felldar niður ferðir hópbifreiða. Þá fellur niður skólaakstur í Reykjavík í dag en aksturþjónusta fyrir fatlaða helst óbreytt.
Ágreiningur hefur verið um hvort verkfallið eigi að ná til bílstjóra sem ekki eru í Eflingu og talsverð óvissa ríkti í gær um hverjir myndu leggja niður störf í dag. Á RÚV er greint frá því að þeir starfsmenn Kynnisferða sem ekki eru félagsmenn í Eflingu fengu þau skilaboð frá sínum stéttarfélögum að þeir mættu vinna sín störf og mættu því til starfa í dag.
Verkfallinu lýkur á miðnætti
Lík og í verkfalli Eflingar fyrir tveimur vikum mun Efling standa fyrir dagskrá og aðgerðum í dag. Þannig verður samstöðufundur rútubílstjóra í Vinabæ og hótelstarfsfólk mun fara á milli hótela þar sem verða kröfustöður Verkfallinu lýkur á miðnætti í kvöld en næstu verkföll á vegum Eflingar og VR eru boðuð 28. og 29. mars ef ekki nást samningar fyrir þann tíma