Bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ og Reykjanesbæ harma þá niðurstöðu að WOW air hafi hætt starfsemi. Í fréttatilkynningum frá bæjaryfirvöldunum segir að ljóst sé að þetta áfall muni hafa samfélagsleg áhrif þar sem mikill fjöldi íbúa sveitarfélaganna tveggja störfuðu hjá WOW air eða í fyrirtækjum sem veittu flugfélaginu beina eða óbeina þjónustu. Stjórnendahópur Suðurnesjabæjar hefur fundað um málið og undirbýr viðbrögð og aðgerðir vegna málsins.
Fyrirtæki sem veittu WOW air þjónustu þurfa að draga saman starfsemi sína
Í fréttatilkynningu frá Suðurnesjabæ, Sandgerði og Garður mynda sveitarfélagið Suðurnesjabæ, segir að afleiðingar gjaldþrots WOW air séu að miklu leyti óljósar ennþá en hins vegar sé ljóst að áhrifa þessa muni gæta víða í þjóðfélaginu og hafa áhrif á efnahagsmál þjóðarinnar.
Þá segir að þótt ekki liggi fyrir hver bein áhrif verða á Suðurnesjabæ og íbúa sveitarfélagsins þá megi reikna með því að þau verði nokkur. Flugstöð Leifs Eiríkssonar og fjölmörg þjónustufyrirtæki á flugstöðvarsvæðinu eru staðsett í Suðurnesjabæ og fjöldi íbúa sveitarfélagsins starfa hjá þeim fyrirtækjum. Þá megi reikna með því að fall WOW air muni hafa áhrif á starfsemi annarra ferðaþjónustufyrirækja, þó þær upplýsingar liggi ekki fyrir. Auk þess hafi allt starfsfólk WOW air misst sín störf og segir í tilkynningunni að fram hafi komið að einstök fyrirtæki sem hafa veittu flugfélaginu beina og óbeina þjónustu þurfi að draga saman starfsemi sína og því muni væntanlega fylgja uppsagnir starfsfólks.
Í tilkynningunni segir jafnframt að Suðurnesjabær fylgist náið með framvindu mála. Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar ásamt forystumönnum bæjarstjórnar og bæjarráðs hafa verið í samskiptum við ýmsa aðila sem málum tengjast, meðal annars til að meta aðstæður og leggja á ráðin um viðbrögð. „Suðurnesjabær beinir því til allra hlutaðeigandi að hugað sé að velferð og hagsmunum allra þeirra sem stöðvun starfsemi WOW air hefur áhrif á, hvort sem um er að ræða starfsfólk og fjölskyldur þeirra eða fyrirtæki,“ segir að lokum í tilkynningunni
Ljóst að þetta áfall muni hafa mikil samfélagsleg áhrif á Reykjanesbæ
Bæjarráð Reykjanesbæjar sendi einnig frá sér bókun vegna WOW air í gær. Þar kemur fram að bæjarráðið harmi að starfsemi WOW air hafi verið stöðvuð. Þá segir að ljóst sé að þetta áfall muni hafa mikil samfélagsleg áhrif til skamms tíma, ekki síst fyrir Reykjanesbæ þar sem mikil fjöldi starfsmanna býr. Þá segir að bæjarráðið leggi áherslu á að hugað sé að velferð og hagsmunum allra starfsmanna og fyrirtækja sem þetta mun hafa áhrif á.
Má búast við fleiri uppsögnum
Jónína Guðmundsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri mannauðssviðs WOW air, sagði að 900 til 1.000 manns missa vinnuna hjá WOW air, í samtali við Morgunblaðið í gær. Gróflega séu þetta 200 flugmenn, 400 flugliðar, 50 flugvirkjar og starfsfólk í Keflavík og höfuðstöðvunum. Í desember sagði flugfélagið upp 110 fastráðnum starfsmönnum og verktökum og lausráðnum starfsmönnum, alls um 350 manns.
Unnur Sverrisdóttir. forstjóri Vinnumálastofnunar, sagði í samtali við fréttastofu RÚV í gær að aldrei hafi jafnmargir misst vinnuna í einu líkt og í gær. Þá er talið að störfum fækki hjá þjónustuaðilum flugfélagsins sem og störfum hjá fjölda ferðaþjónustufyrirtækja sem byggt hafi afkomu sína að hluta á farþegum sem komu með WOW. Sem dæmi má nefna að 59 manns var sagt upp hjá Kynnisferðum í gær.
Vinnumálastofnun vakti athygli á því í gær að þeir sem störfuðu hjá WOW air geti sótt um atvinnuleysisbætur á heimasíðu stofnunarinnar. Stofnun hvetur fólk til að hefja umsóknarferlið sem fyrst þar sem atvinnuleysisbætur eru greiddar frá þeim degi sem umsókn berst.