Landssamtök íslenskra stúdenta fagna því að frítekjumarkið hafi verið hækkað í breyttum úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2019 til 2020. Í ályktun frá samtökunum segir að þetta sé afrakstur mikillar vinnu stúdenta og sameinaðrar raddar þeirra og því jákvætt framfaraskref. Aftur á móti segja samtökin það vonbrigði að ekki hafi verið komið til móts við kröfur stúdenta um hærri grunnframfærslu með endurreiknuðum húsnæðisgrunni, lækkun skerðingarhlutfalls og ferðalána stúdenta sem stunda nám erlendis.
Ráðherra kynnir umfangsmiklar breytingar á LÍN
Síðasta föstudag sendi mennta- og menningarmálaráðuneytið frá sér tilkynningu um að frítekjumark námsmanna hækki um 43 prósent og fari úr 930.000 krónum á ári í 1.330.000 krónur. Í tilkynningu kom fram að þessi hækkun komi til móts við óskir námsmanna sem bent hafa á að frítekjumarkið hafi ekki verið hækkað í takt við verðlagsbreytingar og launahækkanir síðan árið 2014.
Auk þess kom fram í tilkynningunni að umfangsmiklar kerfisbreytingar séu fyrirhugaðar á fyrirkomulagi LÍN en ráðgert sé að nýtt frumvarp um sjóðinn verði lagt fram á Alþingi í haust. Kerfisbreytingarnar felast meðal annars í því að námsstyrkur ríkisins verði gagnsærri og meira jafnræði verði meðal námsmanna og muni nýja kerfinu þannig svipa meira til norrænna námsstyrkjakerfa.
Landssamtök íslenskra stúdenta hafa sent frá sér ályktun sem samþykkt var einróma á landsþingi samtakanna um helgina. Í ályktuninni segir að með hækkun frítekjumarksins hafi mikilvægt skref verið tekið í átt að bættum kjörum stúdenta. Samtökin benda hinsvegar á að munur sé á annars vegar úthlutunarreglum og hins vegar lögum um LÍN sem eru í endurskoðun.
„Verði hugmyndir mennta- og menningarmálaráðherra um nýtt
lánasjóðskerfi að veruleika, meðal annars um niðurfellingu á hluta lána að loknu námi, standa
úthlutunarreglur þó óbreyttar þannig að kjör stúdenta á meðan námi stendur breytast ekki með
nýju lánasjóðskerfi. Af þeim sökum vilja stúdentar hvetja ráðherra til að koma enn frekar til móts
við kröfur stúdenta þegar tekin er ákvörðun um úthlutunarreglur fyrir skólaárið 2020-2021,“ segir í ályktuninni.
Framfærslan taki ekki mið af verðlagsbreytingum
Í ályktuninni samtakanna er gagnrýnt að ekki sé búið að lækka skerðingarhlutfallið aftur niður í 35 prósent. Skerðingarhlutfall sem leggst á lán þegar tekjur lántakenda fara yfir frítekjumark var hækkað í 45 prósent árið 2014. „Sú aðgerð átti að vera tímabundin til að bregðast við þáverandi ástandi og því með öllu óásættanlegt að fimm árum síðar sé ekki enn búið að lækka skerðingarhlutfallið aftur niður í 35 prósent,“ segir í ályktuninni.
Auk þess gera samtökin alvarlega athugasemd við það að framfærslan standi í stað í nýjum úthlutunarreglum LÍN og enn fremur að hún taki ekki mið af verðlagsbreytingum. „Það er í raun ígildi lækkunar þar sem óbreytt krónutala á framfærslu felur í sér lækkun á kaupmætti. Stúdentar fara fram á það að endurskoðun á grunnframfærslu eigi sér stað með sérstöku tilliti til húsnæðisgrunns þar sem gert er ráð fyrir að allir lánþegar sæki og fái hámarkshúsnæðisbætur.“
Jafnframt lýsa samtökin yfir vonbrigðum um að ekki hafi verið samþykkt að stúdentar í námi erlendis fái lánað fyrir ferðalögum fram og til baka einu sinni á hverju ári. Í núverandi reglum fá stúdentar erlendis aðeins lán fyrir einni ferð út og annarri ferð heim meðan á öllum námsferlinum stendur. Samkvæmt ályktuninni setur það stúdenta sem hafa ekki færi á að vinna í því landi sem þau stunda nám, í erfiða stöðu enda þurfa þeir þá að fljúga til Íslands í þeim tilgangi.
LÍN þjóni ekki lengur hlutverki sínu sem félagslegur jöfnunarsjóður
Að lokum segir í ályktuninni að fækkun lánþega undanfarin ár sé skýr birtingarmynd þess að LÍN þjónar ekki lengur hlutverki sínu sem félagslegur jöfnunarsjóður. „Það er samfélaginu til bóta að tryggja að hver og einn geti sinnt námi sínu af skilvirkni og festu. Kröfur stúdenta eru til þess gerðar að sjóðurinn þjóni því hlutverki sem honum var upphaflega ætlað. Vilji mennta- og menningarmálaráðherra standa við gefin loforð um besta lánasjóðskerfi á Norðurlöndunum eru kröfur stúdenta varðandi úthlutunarreglur skýrar, “ segir í ályktuninni.
SHÍ skorar á ráðherra að hafa lága framfærslu hugfasta
Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur einnig sent frá sér ályktun um úthlutunarreglur LÍN. Þar segir að hækkun frítekjumarksins sé fagnaðarerindi og jafnframt afrakstur vinnu margra aðila. SHÍ lýsir hins vegar áhyggjum yfir því að framfærsla stúdenta var ekki hækkuð í nýjum úthlutunarreglum en ráðið segir það eina helsta ástæðuna fyrir bágum kjörum og skorti á fjárhagslegum stuðningi stúdenta.
SHÍ skora því á mennta- og menningarmálaráðherra að hafa lága framfærslu hugfasta í áframhaldandi vinnu við lánasjóðsfrumvarpið og gera enn betur í næstu úthlutunarreglum til þess að tryggja hlutverk lánasjóðsins sem jöfnunarsjóð.