Skólasókn innflytjenda á Íslandi er að jafnaði lægri en skólasókn innlendri. Mestur er munurinn í framhaldsskóla en ef litið er á alla brautskráða nemendur á framhaldsskólastigi, skólaárið 2016 til 2017 sem hlutfall af mannfjölda á aldrinum 18 til 22 ára, hafa tæp 24 prósent þeirra sem hafa íslenskan bakgrunn útskrifast þetta ár. Þá hafa 16,5 prósent þeirra sem eru fæddir erlendis, með annað foreldrið erlent, útskrifast þetta ár en aðeins rúm 8 prósent innflytjenda. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar.
Bakgrunnur hefur áhrif á menntun og störf hér á landi
Hlutfall innflytjenda á Íslandi hefur aldrei verið hærra en árið 2018 en þá voru innflytjendur 12,6 prósent mannfjöldans. Hagstofa Íslands birti í janúar síðastliðnum samantekt um félagslega velferð innflytjenda. Í niðurstöðum Hagstofunnar kom fram að hér á landi hafi innflytjendur almennt gott aðgengi að vinnumarkaðinum og séu upp til hópa aðilar að stéttarfélagi. Aftur á móti vinni innflytjendur hlutfallslega meira en innlendir en fái að jafnaði lægri tekjur.
Í síðustu viku greindi Hagstofan frá því að innlendir séu með hærri laun en innflytjendur í þeim störfum sem innflytjendur vinna oftast við hér á landi. Þá eru innflytjendur að jafnaði með tæplega 8 prósent lægri laun en innlendir hér á landi. Samkvæmt greiningu Hagstofunnar var skilyrtur launamunur 10 prósent í störfum ræstingafólks og aðstoðarfólks í mötuneytum milli innlendra og innflytjenda, 11 prósent í störfum verkafólks við handsamsetningu og 8 prósent í störfum við barnagæslu.
Jafnframt áætlar Hagstofan að innflytjendur séu í meira mæli ofmenntaðir fyrir störfin sem þeir gegna en innlendir. Auk þess benda niðurstöður til þess að innflytjendur beri að jafnaði minna úr býtum fyrir menntun sína en innlendir. Það á bæði við um grunnmenntaða og háskólamenntaða einstaklinga.
Skólasókn innflytjenda að jafnaði lægri
Skólasókn innflytjenda í leikskóla, framhaldsskóla og háskóla er að jafnaði lægri en skólasókn innlendri hér á landi. Mestur er munurinn í framhaldsskóla en hlutfallslega færri innflytjendur en innlendir byrja í framhaldsskóla við 16 ára aldur og skólasókn þeirra lækkar meira fyrir hvert aldursár.
Ef horft er til 2017 má sjá að nærri allir innlendir á 16. aldursári sækja framhaldsskóla, en átta af hverjum 10 innflytjendum. Á 19. aldursári sóttu um sjö af hverjum 10 innlendum íbúum framhaldsskóla, en aðeins um tveir af hverjum 10 innflytjendum. Endurtekning þessa mynsturs á árunum 2008 til 2017 gefur vísbendingu um að brotthvarf úr framhaldsskóla sé algengara meðal innflytjenda en innlendra. Jafnframt hafa flestir þeirra innflytjendur sem sækja framhaldsskóla hér landi dvalist á Íslandi í meira en níu ár.
Í greiningu Hagstofunnar teljast einstaklingar sem eru fæddir erlendis og eiga báða foreldra af erlendum uppruna sem innflytjendur. Skiptinemar, sem koma til styttri dvalar á Íslandi, teljast með innflytjendum í þessum tölum. Annarrar kynslóðar innflytjendur eru þeir sem eru fæddir á Íslandi en báðir foreldrar eru innflytjendur.