Afkoma rekstrarreiknings Hörpu var neikvæð um 461,5 milljónir króna í fyrra en árið áður nam tapið 243,4 milljónum. Þetta kemur fram í ársreikningi tónlistarhússins sem birtur var í gær. Þórður Sverrisson, fráfarandi stjórnarformaður Hörpu, segir tapið skýrast af því fyrirkomulagi að skuldabréfalán til 35 ára, sem tekið var til að fjármagna byggingu hússins, sé vistað í dótturfélagi fyrirtækisins. Hann segir ljóst að þetta rekstarmódel Hörpu hafi aldrei verið og geti aldrei orðið sjálfbært. Þessu verði að breyta til að skapa Hörpu eðlilegan rekstrargrundvöll til framtíðar.
Eigið fé neikvætt um rúmlega hálfan milljarð
Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpan er í 54 prósent eigu ríkisins og 46 prósent í eigu Reykjavíkurborgar. Í ársreikningi félagsins kemur fram að í Hörpu voru haldnir tæplega 1.500 viðburðir á síðasta ári og tekjur af viðburðahaldi Hörpu voru 757 milljónir króna og jukust um tuttugu milljónir milli ára. Jafnframt er annað árið í röð rekstrarhagnaður félagsins, EBITA, jákvæður en hann nam rúmum 42 milljónum króna í ár en nam tæpum 57 milljónum árið 2017. Auk þess hækkuðu leigutekjur lítillega eða um þrjár milljónir og voru rúmar 179 milljónir. Þá var eigið fé félagsins var neikvætt um 510 milljarða króna.
Þórður Sverrisson ræddi ársreikning félagsins og starfsemi Hörpu í ávarpi sínu á aðalfundi Hörpu í gær. Hann sagði að rekstur Hörpu hefði gengið eins og áætlun hefði gert ráð fyrir og jafnframt hefði afkoma samstæðunnar án rekstrarframlaga batnað milli ára. Ríkið og Reykjavíkurborg hefði fyrir milligöngu eigendanefndar lagt félaginu til 400 milljónir króna rekstrarframlag á liðnu ári og muni einnig leggja 450 milljónir króna til rekstursins í ár. Engu að síður sýndi niðurstaða rekstrarreiknings 461 milljón króna tap og eigið fé er neikvætt um 510 milljónir króna.
Hann sagði það hins vegar mat stjórnarinnar að eigið fé Hörpu væri vanmetið í ársreikningnum. „Þá er það mat fráfarandi stjórnar að bókfært verð eigin fjár samstæðunnar sé verulega vanmetið og efnahagsstaða Hörpu traust væri reikningsskilum félagsins breytt til samræmis við fyrirliggjandi tillögur um að eignfæra samningsbundið framlag frá ríkinu og Reykjavíkurborg vegna afborgunar og vaxta af fjármögnun fasteignar. Með þeim hætti næmi eigið fé Hörpu ohf. 12 milljörðum króna,“ sagði Þórður.
Reikningurinn muni alltaf sýna verulegan rekstrarhalla
Jafnframt sagði Þórður að það sem valdi þessum árlega taprekstri Hörpu og neikvæðu eiginfé væri sú ákvörðun eiganda að nánast öll fjárfesting í Hörpu er fjármögnuð með skuldabréfaláni til 35 ára og sú skuld er vistuð í dótturfélagi Hörpu og því hluti af samstæðureikningi Hörpu. Hann sagði að þar með bókist allur fjármagnskostnaður og verðbreytingafærslur og afskriftir inn í rekstrarreikninginn. Reikningurinn muni því alltaf sýna verulegan rekstrarhalla, þrátt fyrir jákvætt greiðslustreymi og EBIDTA.
„Það er morgunljóst að þetta rekstrarmódel Hörpu hefur aldrei verið og getur aldrei orðið sjálfbært. Því verður að breyta til að ná að skapa Hörpu ohf, sem hlutafélagi eðlilegan rekstrargrundvöll til framtíðar þannig að það nái að starfa sem sjálfbært fyrirtæki og geti gegnt sínu mikilvæga hlutverki,“ sagði Þórður.
Því hefði stjórn og eigendanefnd unnið að því að finna tryggari rekstrargrundvöll og að nú lægi fyrir að þessir aðilar komist á næstu mánuðum að niðurstöðu um hvernig tryggja megi til framtíðar sjálfbæran efnahags- og rekstrargrundvöll Hörpu.
Ingibjörg Ösp nýr stjórnarformaður Hörpu
Þórður hefur ákveðið að víkja úr stjórn eftir að hafa verið stjórnarformaður Hörpu í tvö ár og var Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir kjörin nýr stjórnarformaður í hans stað á aðalfundinum í gær. Auk Ingibjargar Aspar kemur Guðni Tómasson nýr inn í stjórnina í stað Vilhjálms Egilssonar. Auk þeirra eru í stjórninni Aðalheiður Magnúsdóttir, Arna Schram og Árni Geir Pálsson.