Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur hefur samþykkt að stofnuð verði sérstök stoðdeild í Háaleitisskóla vegna móttöku barna hælisleitenda og erlendra börn með litla skólagöngu að baki. Börnin sem sækja munu nám við deildina hafa hingað til dreifst á tólf skóla víðsvegar um borgina og er henni ætlað að vera úrræði til að styðja við börn innflytjenda og hælisleitenda. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Skúli Þór Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, segir í samtali við Kjarnann að stoðdeildin sé að erlendri fyrirmynd og að hún sé framför frá núverandi kerfi þar sem börn innflytjenda og hælisleitenda fari inn í almenna bekki án þess að vera tilbúin til þess. Skúli segir að grunnhugmyndin með stofnun deildarinnar sé að „mýkja lendinguna” fyrir börn hælisleitenda sem hingað til hafi farið inn í bekki í sínum skólum, án þess að vera tilbúin til þess.
Kennari sem Kjarninn ræddi sagði að sér litist vel á úrræðið, þó að hann hefði ekki kynnt sér málið ítarlega.
Ekki verið að einangra börn hælisleitenda
Í tilkynningu borgarinnar segir að mikilvægt sé að hlúa að náms- og félagslegri stöðu þessara barna, þar sem gera megi ráð fyrir að þau muni ekki dvelja lengi í íslensku samfélagi. Skúli þvertekur fyrir að með stoðdeildinni sé verið að einangra börn hælisleitenda eða að deildin muni koma í veg fyrir aðlögun þeirra að íslensku samfélagi. Þá sé alls ekki verið að reyna að koma í veg fyrir aðstæður líkar þeim sem komu upp í Hagaskóla nýverið, þegar nemendur við skólann hófu mótmæli gegn því að nemanda og fjölskyldu hans yrði vísað úr landi.
Hann segir að þvert á móti sé deildinni ætlað að auðvelda aðlögun barnanna og koma í veg fyrir að þau upplifi sig utangátta þegar þau koma inn í almenna skólakerfið. Séu þau ekki undir það búin að taka þátt í almennu skólastarfi þegar þau komi inn í skólakerfið þá geti barnið upplifað sig utangátta. Tilkoma móttökudeildarinnar geti því auðveldað þeim að mynda tengsl þegar þau koma inn í almenna bekki.
Hann segir að stoðdeildin sé einungis tímabundið úrræði og miðað sé við að börnin verði þar í mesta lagi í nokkra mánuði. Í stoðdeildinni muni þau fá stuðning og kennarar deildarinnar leggja á það mat hvenær þau séu tilbúin til að fara inn í venjulegan bekk. Það mat muni meðal annars byggja á andlegri stöðu barnsins og hver skólaganga þess hefur verið áður en þau koma til Íslands.
Þörf á fjölbreyttum úrræðum
Í skýrslu starfshóps skóla- og frístundasviðs um móttöku og aðlögun barna innflytjenda og hælisleitenda segir að dæmi sé um að börn í þessum hópi hafi orðið fyrir margþættum áföllum og að þau hafi ekki verið í skóla áður. Misbrestur hafi verið á því að þjónusta við þennan hóp og fjölskyldur þeirra sé í höndum félagsráðgjafa og því geti tekið langan tíma að koma málum þeirra í réttan farveg. Nýja fyrirkomulagið tryggi hins vegar betra utanumhald utan um þennan hóp.
Í skýrslunni sem vitnað er til að ofan segir að mismunandi sé bæði á milli landa og sveitarfélaga á Norðurlöndunum hvernig staðið sé að móttöku barna innflytjenda og flóttafólks. Í stærri sveitarfélögum og höfuðborgum landanna séu móttökumiðstöðvar fyrsti viðkomustaður barna sem eru nýkomin til landsins. Þar fari fram mat á stöðu barnsins og á grundvelli þess mats sé ákveðið hvort að barnið fari í almennan bekk, móttökudeild innan skóla eða önnur úrræði. Markmiðið sé hins vegar alltaf að sérúrræði standi ekki lengi og að börnin geti hafið nám í almennum bekkjum.
Hópar kennara og kennsluráðgjafa frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu sem fóru til Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar til að kynna sér hvernig móttöku barna innflytjenda og hælisleitenda er háttað þar skilaði af sér tillögum um úrbætur í málaflokknum hér á landi. Þar er meðal annars bent á að hópur erlendra barna sem hingað koma sé fjölbreyttur og ólíkur. Því sé mikilvægt að sveitarfélögin bjóði upp á mismunandi námsúrræði. Það kemur einnig fram í erlendri skýrslu sem vitnað er til, en þar segja viðmælendur að nauðsynlegt sé að úrræðin séu fjölbreytt.
Börnin hafa dreifst á tólf skóla
Í tilkynningu borgarinnar segir að nemendurnir sem komi til með að sækja nám í stoðdeildinni komi víðs vegar að úr borginni og hafi hingað til dreifst á tólf skóla. Í tilkynningu borgarinnar segir að samgöngur barnanna muni verða tryggðar og Háaleitisskóli hafi orðið fyrir valinu meðal annars vegna þess hversu miðsvæðis hann er í Reykjavík og vel hann liggi við samgöngum. Þá sé íþróttafélag starfandi við skólann og húsnæði frístundaheimilis skólans nýtist vel.
Áætlað er að kostnaður skóla- og frístundasviðs fyrir árið 2019 verði fjórtán milljónir og að við deildina muni starfa einn deildarstjóri, þrír kennarar auk eins stuðningsfulltrúa.
Samkvæmt tilkynningu borgarinnar liggur fyrir umsögn skólaráðs Háaleitisskóla, auk þess sem foreldrafélag skólans og kennarar hafi verið jákvæðir í garð þess að deildin verði starfrækt innan veggja skólans.