Í byrjun júlí 2017 fengu tveir bræður í Ástralíu pakka frá Tyrklandi. Sendandinn var hópur undir stjórn Basil Hassan, dansks verkfræðings af líbönskum uppruna. Í pakkanum var sprengibúnaður, sem hægt var að stjórna með farsíma. Hálfum mánuði síðar, 17. Júlí, fór annar bræðranna, með litla hjólatösku, á flugvöllinn í Sydney, hann var með flugmiða til Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Taskan, sem hann ætlaði að hafa með sér inn í flugvélina, reyndist þyngri en leyfilegt er og þá hætti maðurinn við ferðina og fór heim. Síðar komst lögregla að því að í töskunni var gamaldags handsnúin hakkavél, fyllt með sprengiefninu PETN og búnaðurinn sem hafði komið í pakkanum frá Tyrklandi. Ætlun mannsins var að tendra sprengjuna, með farsíma, þegar vélin væri komin á loft.
Ástralskir fjölmiðlar fullyrtu að þessar fyrirætlanir hefðu gengið upp ef taskan hefði verið innan leyfilegra þyngdarmarka. Ástralskir fjölmiðlar sögðu það nánast tilviljun að manninum tókst ekki ætlunarverk sitt. Þetta fyrirhugaða hryðjuverk hafði hópur, sem talið er að sé, eða hafi verið, undir stjórn Basil Hassan skipulagt. Hópurinn kennir sig við íslamska ríkið.
Undirbjuggu annað hryðjuverk
Áðurnefndir bræður í Ástralíu hófust strax aftur handa við að skipuleggja annað ódæði. Sem fyrr var það hópur Basil Hassan í Raqqa í austurhluta Sýrlands sem skipulagði. Að þessu sinni var ætlunin að nota eiturgas sem yrði beint að samgöngukerfi Ástralíu.
Hvorki bræðurnir né Basil Hassan vissu að erlendar leyniþjónustur, þar á meðal sú danska, höfðu látið áströlsku lögreglunni í té upplýsingar sem leiddu til þess að fylgst var með bræðrunum. Upplýsingar um hakkavélina í ferðatöskunni voru að líkindum komnar úr sömu átt, þótt ekki hafi verið upplýst um það. Bræðurnir tveir voru handteknir í Ástralíu áður en þeir gætu framkvæmt áætlanirnar um eiturgasið. Danska Leyniþjónustan, PET, fylgist grannt með öllu sem tengist Basil Hassan sem er eftirlýstur í Danmörku. Og fyrir því eru ríkar ástæður, fleiri en ein.
Misheppnuð morðtilraun
5. febrúar árið 2013 hringdi maður, íklæddur rauðum póstmannsjakka bjöllunni á heimili danska rithöfundarins Lars Hedegaard á Friðriksbergi við Kaupmannahöfn. Þegar rithöfundurinn opnaði dró sá í rauða jakkanum upp byssu og hleypti af. Þótt færið væri einungis einn metri geigaði skotið en þegar sá rauðklæddi ætlaði að hleypa af öðru skoti stóð byssan á sér. Eftir handalögmál komst maðurinn í rauða jakkanum undan. Að sögn rithöfundarins talaði sá rauðklæddi lýtalausa dönsku. Lögreglan taldi sig vita hver maðurinn væri, en upplýsti ekki strax um nafn hans. Síðar kom fram að þessi maður var Basil Hassan. Ástæða tilræðisins var talin vera skrif rithöfundarins um múslíma. Lýst var eftir Basil Hassan á alþjóðavettvangi og gefin út handtökuskipun á hann.
Basil Hassan handtekinn, og sleppt
5. apríl 2014 handtók tyrkneska lögreglan danskan ríkisborgara, sem reyndist vera margnefndur Basil Hassan. Ástæður handtökunnar hafa aldrei verið birtar. Danir óskuðu strax eftir framsali hans en áður en að því kom var Basil Hassan látinn laus. Skýringar Tyrkja á þeirri ákvörðun voru loðnar og ollu mikilli reiði Dana. Basil Hassan var hinsvegar á bak og burt. Síðar kom í ljós að hann hefði að líkindum farið til Sýrlands. Hann er ofarlega á lista bandarísku leyniþjónustunnar yfir sérlega hættulega hryðjuverkamenn. Nokkrum sinnum hafa borist af því fréttir að hann hafi verið drepinn en það hefur aldrei fengist staðfest.
Drónahernaðurinn og tómstundabúðin í Kaupmannahöfn
Í október árið 2016 varð sprengja borin af dróna (flygildi), tveimur kúrdískum hermönnum í Írak að bana. Leyniþjónustur Danmerkur og Bandaríkjanna telja sig vita með vissu að drónahernaður íslamska ríkisins hafi verið skipulagður af Basil Hassan. Og að dróninn sem varð Kúrdunum tveim að bana í Írak hafi verið keyptur í verslun á Fredensgade í Kaupmannahöfn. Danska leyniþjónustan hafði komist á snoðir um tengsl Basil Hassan við þrjá eða fjóra menn í Kaupmannahöfn og einn þeirra hafði keypt sex öfluga dróna í versluninni sem áður var nefnd og ætlaði síðar að kaupa fleiri. Þessir menn voru síðar allir handteknir og sitja í fangelsi í Danmörku. Í aðgerðum dönsku lögreglunnar í lok september í fyrra voru tveir menn handteknir og bíða þess nú að réttað verði yfir þeim. Sama dag var Basil Hassan úrskurðaður í gæsluvarðhald að honum fjarstöddum (in absentia).
Tilraunapakkar í flugi og áhyggjur Dana
Danska ríkisútvarpið, P1, hefur nýlega, í níu útvarpsþáttum, fjallað ítarlega um Basil Hassan og hryðjuverkastarfsemi íslamska ríkisins. Í þætti í danska sjónvarpinu, DR, fyrir tveim vikum var greint frá því að árin 2016 og 2017 hefði hópur undir stjórn Basil Hassan reynt að senda pakka í flugi frá Tyrklandi og Maldíveyjum til fjölmargra landa, þar á meðal Qatar, Englands, Þýskalands og Bandaríkjanna. Tilgangurinn var að láta reyna á öryggiseftirlit á flugvöllum.
Danska leyniþjónustan telur fulla ástæðu til að óttast að hryðjuverkamenn tengdir íslamska ríkinu muni láta til skarar skríða í Danmörku, hvort sem Basil Hassan sé lífs eða liðinn. Leyniþjónustan hefur komist yfir myndir þar sem sjá má svonefnt Kristjaníu reiðhjól (algeng í Danmörku) og ennfremur tröppur sem líkjast innganginum við Nørreport lestarstöðina í Kaupmannahöfn.
Svíinn Magnus Ranstorp, einn helsti sérfræðingur á Norðurlöndum varðandi rannsóknir á hryðjuverkum, sagði í viðtalið við Danska sjónvarpið að aldrei sé of varlega farið og allar minnstu grunsemdir varðandi hugsanleg hryðjuverk verði ætíð að taka alvarlega.
Fyrir áhugasama lesendur má nefna tvo pistla sem birst hafa hér í Kjarnanum. Annar um tilræðið við Lars Hedegaard og hinn um drónaverslunina þar sem hryðjuverkamenn keyptu dróna.