Viðræður um bótafjárhæðir fara nú fram á milli setts ríkislögmanns og þeirra sem sýknaðir voru í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu í september síðastliðnum. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru sex hundruð milljónir til skiptanna en fénu verður deilt á milli hinna sýknuðu meðal annars eftir lengd frelsissviptingar.
Upphæðin hækkuð til að liðka fyrir viðræðum
Forsætisráðherra skipaði nefnd síðasta haust sem leiða átti fyrir hönd stjórnvalda sáttaviðræður við fyrrum sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu sem sýknaðir voru með dómi Hæstaréttar Íslands þann 27. september síðastliðinn í endurupptökumáli og aðstandendur þeirra. Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur hefur leitt störf nefndarinnar.
Verkefni nefndarinnar er að leiða sáttaviðræðurnar og gera tillögu til forsætisráðherra og ríkisstjórnar um hugsanlega greiðslu miska- og skaðabóta eða eftir atvikum svonefndra sanngirnisbóta til aðila málsins og aðstandenda þeirra. Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur fram að upphaflega hafi stjórnvöld hyggst verja til sáttanna 400 milljónum en nú hafi sú upphæð verið hækkuð í 600 milljónir til að liðka fyrir viðræðunum.
Fjárhæðinni verður skipt á milli hinna sýknuðu eftir lengd gæsluvarðhalds og afplánunar óháð því hvort viðkomandi er enn á lífi en í tilviki þeirra Sævars Marínós Ciesielski og Tryggva Rúnars Leifssonar rynnu bætur til erfingja þeirra.
Heimildir Fréttablaðsins herma að ríkislögmaður leggur upp með að með sáttum myndi málinu ljúka og hinir sýknuðu afsala sér rétti til að freista þess að sækja frekari bætur til dómstóla. Takist samningar um skaðabætur þarf að setja sérstök lög um sáttina en lagt er upp með að um skattfrjálsar miskabætur yrði að ræða.