Tæplega helmingur þeirra sem taka afstöðu er andvígur því að þriðji orkupakkinn verði samþykktur á Alþingi. Þá er 30 prósent hlynntur samþykkt orkupakkans en 21,7 prósent hlutlaus. Stuðningur við samþykkt eykst eftir því fólk hefur kynnt sér þriðja orkupakkann betur en alls söguðust tæplega 60 prósent svarenda ekki hafa kynnt sér málið eða kynnt sér það illa. Þetta kemur fram í niðurstöðum skoðananakönnunar sem Zenter rannsóknir framkvæmdu fyrir Fréttablaðið.
Stærsti hópur svarenda óviss
Í umfjöllun Fréttablaðsins segir að þegar svör allra eru skoðuð þá sé ljóst að stærsti hópurinn eða 36,3 prósent, segist ekki vita hvort hann sé hlynntur eða andvígur þriðja orkupakkanum. Í könnunni var jafnframt spurt hversu vel eða illa fólk hefði kynnt sér orkupakkann og samkvæmt niðurstöðunum eykst stuðningur við samþykkt eftir því sem fólk hefur kynnst sér málið betur. Alls sögðust tæp 59 prósent annaðhvort ekki hafa kynnt sér málið eða kynnt sér það illa.
Af þeim sem segjast hafa kynnt sér málið vel eru 46 prósent hlynnt samþykkt, 26 prósent þeirra sem hvorki hafa kynnt sér málið vel né illa, 19 prósent þeirra sem hafa kynnt sér orkupakkann illa og 12 prósent þeirra sem hafa kynnt sér málið vel.
Þá segist helmingur þeirra sem hafa kynnt sér málið vel og þeirra sem hafa hvorki kynnt sér það vel né illa er andvígur samþykkt þriðja orkupakkans. Þá eru 46 prósent þeirra sem hafa kynnt sér málið illa og 45 prósent þeirra sem ekki hafa kynnt sér það andvíg samþykkt þess.