Icelandairgroup vinnur nú að lokadrögum að sölusamningi á 80 prósent hlut í Icelandair Hotels, dótturfélagi Icelandair Group. Kaupandinn er dótturfélag malasíska fjárfestingafélagsins Berjaya Corporation. Frá þessu er greint í ViðskiptaMogganum í dag.
Um tvö þúsund hótelherbergi
Icelandair Group tilkynnti í maí á síðasta ári að félagið hefði ákveðið selja Icelandair Hotels og fasteignir sem tilheyra hótelrekstri, en samtals rekur fyrirtækið 13 hótel. Þá rekur fyrirtækið einnig tíu sumarhótel undir merkjum Eddu hótela um allt land. Um er að ræða alls 1.937 herbergi á landinu öllu, 876 í Reykjavík og 450 herbergi á landsbyggðinni í rekstri allt árið en þar að auki 611 Eddu hótelherbergi í sumarrekstri. Samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans hugðist Icelandair Group selja félagið í heild en mun nú halda eftir fimmtungshlut af því.
Stærsta fyrirtæki í Malasíu
Berjaya Corporation, sem var stofnuð af milljarðamæringnum Vincent Tan en hann er einnig eiganda breska knattspyrnufélagsins Cardiff City. Berjaya Corporation sem er eitt stærsta fyrirtæki í Malasíu. Fjárfestir það meðal annars í lottó- og fjárhættuspilastarfsemi, hótelum og öðrum fasteignaverkefnum, fjarskiptaþjónustu, matvæla- og drykkjarframleiðendum, dreifingarfyrirtækjum, bílasölum og hinum ýmsu framleiðslufyrirtækjum, svo eitthvað sé nefnt.
Í febrúar síðastliðnum var greint frá því að dótturfélag Berjaya Corporation, Berjaya Reykjavik Investment, væri að ganga frá kaupum á fasteigninni að Geirsgötu 11 á Miðbakka við gömlu höfnina í Reykjavík. Seljendur eru félögin Fiskitangi og Útgerðarfélag Reykjavíkur sem eru að stærstum hluta í eigu Guðmundar Kristjánssonar, útgerðarmanns og forstjóra HB Granda.
Útkoman verri en búist var við
Icelandair tapaði 6,7 milljörðum á fyrstu þremur mánuðum ársins, eða sem nemur rúmlega 55 milljónum Bandaríkjadala. Útkoman var lakari en spár greinenda á markaði höfðu gert ráð fyrir. Á síðustu tveimur ársfjórðungum hefur félagið tapað 13,5 milljörðum króna. Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, sagði að rekstrarumhverfið flugfélagsins hefði verið erfitt undanfarin misseri, ekki síst vegna þess að samkeppnisaðilar hafi verið selja farmiða á ósjálfbærum verðum.
Í tilkynningu sem Icelandair sendi til kauphallar, vegna uppgjörsins, segir að þrátt fyrir erfiða stöðu séu langtímahorfur félagsins og íslenskrar ferðaþjónustu góðar.