Tryggingastofnun mun hefja endurskoðun mála hjá örorkulífeyrisþegum sem hafa verið með hlutfallslegan búsetuútreikning og búið í öðru landi innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þúsundir einstaklingar sem búið hafa erlendis, en innan EES-svæðisins, hafa orðið fyrir skerðingu á rétti sínum til örorkulífeyris vegna túlkunar Tryggingastofnunar á ákveðnum ákvæðum í lögum um almannatryggingar.
Umboðsmaður Alþingis komst hins vegar að þeirri niðurstöðu síðasta sumar að slíkt væri ekki í samræmi við lög. Félags- og barnamálaráðherra tilkynnti í gær að nú væri Tryggingastofnun ekkert að vanbúnaði að hefjast handa við endurgreiðslur til þeirra sem málið varðar.
Óskað eftir því að stofnunin leiðrétti vangreiddar greiðslur, ásamt vöxtum
Í áliti umboðsmanns Alþingis frá því í júní 2018, sem varðar áhrif búsetutíma erlendis á rétt til örorkulífeyris frá Tryggingastofnun, segir að að lækkun greiðsluhlutfalls lífeyris vegna búsetu erlendis hafi ekki verið í samræmi við lög. Velferðarráðuneytið, nú félagsmálaráðuneytið, lýsti í kjölfarið þeirri afstöðu sinni að það væri sammála niðurstöðu umboðsmanns Alþingis og óskaði eftir því að Tryggingastofnun endurreiknaði greiðslur til hlutaðeigandi einstaklinga og leiðrétti þær sem vangreiddar hafi verið, ásamt vöxtum.
Í tilkynningu frá Félagsmálaráðuneytinu segir að Tryggingastofnun hafi unnið áætlun um hvernig ætti að standa að þeirri framkvæmd en beðið hefur verið eftir að fjallað yrði um málið í ráðherranefnd um ríkisfjármál. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, tilkynnti í gær að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi staðfest að Tryggingastofnun gæti nú hafið endurútreikning örorkubóta vegna búsetuskerðinga, en beðið hefur verið eftir staðfestingu þess efnis. Á heimasíðu Tryggingastofnunar má nú finna nánari upplýsingar um endurskoðunina.
„Eins og mörgum er kunnugt taldi Tryggingastofnun sig ekki hafa heimildir til að hefja vinnuna en nú er búið að skýra þann þátt og er ekkert að vanbúnaði að hefjast handa við endurgreiðslur til þeirra sem málið varðar. Það er mikilvægt að málið gangi eins hratt fyrir sig og kostur er en að sama skapi að vandað verði vel til verka,“ segir Ásmundur Einar í tilkynningunni.
Lögum um almannatryggingar breytt
Í tilkynningunni frá ráðuneytinu segir jafnframt að samhliða þessum leiðréttingum hafi félagsmálaráðuneytið unnið að frumvarpi til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar sem miðar að því að til framtíðar verði réttur til örorkulífeyris ákvarðaður í sama hlutfalli og áunnin réttindi samkvæmt raunverulegri búsetu á Íslandi fram til þess tíma að réttur til örorkulífeyris er ákvarðaður. Einnig þegar um er að ræða veitingu örorkulífeyris á grundvelli tímabila til framtíðar.
Óskuðu eftir stjórnsýsluendurskoðun á starfsemi Tryggingastofnunar
Níu þingmenn sem sitja í velferðarnefnd óskuðu eftir stjórnsýsluendurskoðun á starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins í mars síðastliðnum. Í greinargerð beiðninnar segir að Tryggingastofnun hafi skert lífeyrisgreiðslur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega í um áratug án lagaheimildar. Þúsundir manns hafi orðið fyrir skerðingu vegna bresta í málsmeðferð stofnunarinnar.
Því telja þingmennirnir það mikilvægt að við slíkar aðstæður sé kannað hvort réttindi lífeyrisþega séu tryggð að fullu í samskiptum þeirra við stofnunina. Óskað var eftir því að ríkisendurskoðandi skili Alþingi skýrslu eigi síðar en 1. júní 2019.